137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get vel skilið að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi orðið fyrir vonbrigðum með málflutning minn. (Sjútvrh.: Já, en þú getur nú bætt þig.) Það kemur mér ekkert á óvart. (Gripið fram í.) Það kemur ekki á óvart af því að þannig er jú í mannheimum að mönnum líkar ekki alltaf að vera sagður sannleikurinn og vilja oft horfa á hann með sínum augum, loka augunum fyrir því sem er óþægilegt og hentar ekki inn í þá mynd sem menn vilja draga upp af raunveruleikanum.

Raunveruleikinn er sá sem ég lýsti áðan. Og af hverju segi ég það? Vegna þess, frú forseti, að reynslan sýnir okkur það, reynslan af dagakerfi smábátanna, reynslan af skrapdagakerfinu, reynslan af því þegar við höfum haft opinn aðgang inn í auðlindina.

Það hafa engin borist svör frá hæstv. ráðherra eða hv. þingmönnum þegar um þetta hefur verið spurt. Um þessa atburðarás, um þetta orsakasamhengi. Einu svörin sem hafa borist eru þau að menn séu svartsýnir, skilji ekki að skoðanakannanir í Háskólanum á Akureyri sýni eitthvað sem henti ekki o.s.frv.

Ég man það og ég veit að hæstv. ráðherra man það jafnvel betur en ég því hann er þetta eldri, hvernig komið var fyrir íslenskum sjávarútvegi og hversu fýsilegt mönnum þótti að starfa innan þeirrar greinar hér á árum áður þegar aðgangur var opinn fyrir alla. Þegar allir gátu komið og hafið störf í þeirri grein. Og hvers vegna var það sem menn töldu það ekki mjög fýsilegt þegar um það var spurt í skoðanakönnunum? Vegna þess að það var allt á hvínandi hausnum vegna þess að það voru allt of mörg skip, allt of mörg frystihús til þess að vinna og veiða allt of fáa fiska.

Þetta frumvarp, verði það að lögum, gerir bara það eitt að það verða fleiri bátar til að veiða sama magn af fiski. Það dregur úr þjóðhagslegri hagkvæmni. Ég sé að nú er kominn í salinn hæstv. fjármálaráðherra. Þetta frumvarp getur nú varla glatt hann mjög þegar hann hugsar til þess hvaða skatttekna hann gæti hugsað og látið sig hlakka til að fá frá sjávarútveginum. Því (Forseti hringir.) þær munu minnka vegna þessa frumhlaups hæstv. sjávarútvegsráðherra.