137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það mætti halda af þeim ræðum sem hafa haldnar verið um þetta mál, breytingar á stjórn fiskveiða í þá veru að auka handfæraveiðar, heimila frjálsar handfæraveiðar við Íslandsstrendur, að það skipti algjörum sköpum fyrir land og þjóð. Hér færi hreinlega allt fjandans til ef þetta mál næði fram að ganga. Það er nú öðru nær.

Ég hafði vonað að við þessa umræðu mundi skapast einhver yfirvegun og rólegheit, menn yrðu tilbúnir til að endurskoða stjórn fiskveiða eins og þeir segjast vera tilbúnir til, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og hv. þingmenn Framsóknarflokks sem hafa farið hvað harðast fram í gagnrýni sinni á þetta mál. Það hafa þeir ekki verið, hv. þingmenn hafa ekki verið tilbúnir til að ræða þetta á þeim grunni að sé hægt sé að halda uppi samræðu um það þó að þeir telji sig og haldi því ítrekað fram að þeir séu meira en tilbúnir til að fara í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og séu fullir vilja til þess.

Það er eingöngu út af því að nú hafa þeir verið neyddir til þess að taka þátt í endurskoðun á fiskveiðikerfinu, þeir hafa ekki þurft þess hingað til með meiri hluta í ríkisstjórn, þeir hafa verið dregnir að því borði, nauðugir viljugir og þess vegna eru þeir komnir í þá stöðu sem þeir höfðu aldrei óskað sér að lenda í, þ.e. að taka þátt í endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.

Menn hafa talað mikið um reynslan sé ólygnust og talið upp dæmi um að það sé algjörlega ómögulegt að heimila veiðar af þessu tagi vegna þess að reynslan sýni að það mundi allt enda með ósköpum og hér færi allt fjandans til eins og ég sagði áðan. Menn ættu að skoða reynsluna af fiskveiðistjórnarkerfinu að öðru leyti. Við höfum, virðulegi forseti, aldarfjórðungsreynslu af því fiskveiðistjórnarkerfi sem núna loksins er verið að reyna að hreyfa við, sem núna loksins eftir öll þau ár er verið að reyna að hreyfa við og færa til betri vegar og sú reynsla er bara alls ekki góð. Þar hefur þjóðin öll verið höfð að tilraunadýri, hver einasta byggð, hver einasta sveit í öllu landinu, hver vík og hver fjörður hefur verið hafður að tilraunadýri í því tilraunaverkefni sem lagt var af stað með í byrjun níunda áratugarins. Reynslan er ólygnust í því og hún segir okkur að við eigum að leita nýrra leiða, opna á ný tækifæri, vera fersk í hugsun og reyna að snúa ofan af þeirri vitleysu sem við erum komin í hvað það varðar.

Í sjálfu sér snýst þetta mál ekki um heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, það er síðara mál, síðara verkefni sem við munum fara í á haustdögum, vonandi.

Gagnrýni sem hv. þingmenn hafa að öðru leyti haft uppi um þetta frumvarp snýr að því að það sé verið að breyta leikreglum í miðjum leik. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins meina með því að leikreglum sé breytt hér í miðjum leik, ég átta mig ekki á leiknum, hver leikurinn er og hvaða leikreglum er verið að breyta. Það er verið að auka, það er verið að bæta í þær heimildir sem smábátar geta veitt á Íslandi, það er ekki verið að draga úr því. Það er verið að lagfæra gallað kerfi, meingallað kerfi, sem engin sátt er um og engin sátt hefur verið um í mörg ár, sérstaklega undir stjórn þáverandi sjávarútvegsráðherra hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þar sem ekki hefur tekist að úthluta nema litlum hluta þess byggðakvóta sem hefur verið til úthlutunar á hverju ári og um hann hafa staðið deilur mánuðum og árum saman. Um það hefur engin sátt verið.

Það hefur verið gagnrýnt hér að það sé verið að gefa út haffæriskírteini á þá báta sem hugsanlega munu sækja í þetta nýja handfærakerfi, en hvað segir um það í lögunum? Hvað segir um það í frumvarpinu sem nú liggur hér fyrir, virðulegi forseti?

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr frumvarpinu:

„Aðeins er heimilt að veita fiskiskipi leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.“

Hvað segja þau lög? Í 5. gr. laga um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:

„Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.“

Með öðrum orðum, það gilda bara sömu reglur um þá báta sem ætla að fara á handfæraveiðar innan þessa kerfis eins og alla aðra báta á Íslandi sem fá veiðileyfi, það er bara svo einfalt. Það er ekki verið að flækja málin nokkurn skapaðan hlut, einfaldara getur þetta ekki verið.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafa borist fjölmargar athugasemdir eða við höfum fengið greinargerðir frá fjölmörgum aðilum, bæði opinberum aðilum, stofnunum, samtökum og einstaklingum, sem flest hver — öfugt við það sem hér er sagt og haldið fram — flest hver hafa sýnt þessu máli velvilja.

Hér erum við með erindi frá Landssambandi smábátaeigenda og í áliti þeirra samtaka segir, með leyfi forseta:

„Landssamband smábátaeigenda, LS, lýsir ánægju með framkomið frumvarp um aukið frjálsræði til handfæraveiða.“

Sambandið gerir að vísu nokkrar athugasemdir við frumvarpið sem hefur verið tekið tillit til nánast að öllu leyti. Síðast í morgun kom fulltrúi Landssambands smábátaeigenda á fund nefndarinnar og gerði örlitlar athugasemdir við frumvarpið sem nefndin brást við.

Fiskistofa sendi inn álit um frumvarpið og gerði engar athugasemdir við það.

Fulltrúi Farmannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna kom á fundinn og gerði örlitlar athugasemdir við frumvarpið en það finnast þó engar samþykktir innan þess félagsskapar um þetta mál að nokkru leyti. Þar hefur stjórn þess félags aldrei nokkurn tíma rætt þetta mál, það hefur aldrei verið borinn upp til ályktunar, til samþykktar í stjórn þess félagsskapar, nokkur hlutur þessu tengdur. Það veit ég vel því að ég sit í stjórn þessa klúbbs, það hefur aldrei verið rætt.

Einstaklingar hafa lagt fram álit um þetta frumvarp og gert við það örlitlar athugasemdir en í grunninn mælt með því að það verði tekið fyrir og samþykkt á Alþingi.

Það þarf ekki að vekja neina undrun að Landssamband íslenskra útvegsmanna mæli gegn frumvarpi af þessu tagi, það liggur við að það gerist bara sjálfkrafa ef sjávarútvegsmál eru tekin til umræðu á Alþingi þá leggist Landssamband íslenskra útvegsmanna gegn því, þannig að það er í sjálfu sér engin frétt.

Það hafa borist fjölmargar ályktanir frá sveitarfélögum víða um landið og fjölmargar ályktanir frá sveitarfélögum sem hvetja til þess að fiskveiðistjórnarkerfið verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar, fjölmargar ályktanir sem hvetja til þess.

Ég vil vitna hér í samþykkt í bæjarráði Akureyrar, það er nú enginn smávegis sjávarútvegsbær, þar sem meiri hluti bæjarráðs Akureyrar samþykkir eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Þetta segir bæjarráð Akureyrar og vitnar beint í samstarfssáttmála ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna og Samfylkingar. Áfram heldur bæjarráð Akureyrar, með leyfi virðulegs forseta:

„Bæjarráð Akureyrar tekur heils hugar undir þetta. Það er löngu tímabært að skapa vinnufrið í íslenskum sjávarútvegi og ná sátt um stjórn fiskveiða.“

Þetta er það sem bæjarráð Akureyrar, í þeim mikla sjávarútvegsbæ, hefur fram að færa. Þar sitja nú sjálfstæðismenn, ef ég man rétt, í meiri hluta með bæjarstjóra, í það minnsta þegar þetta var ritað og samþykkt. (JónG: Hv. þingmaður er að rugla saman tveimur málum.) Það er hvatt til endurskoðunar og þetta er hluti af endurskoðun fiskveiða. Hv. þm. Jón Gunnarsson kallar fram í að ég sé að rugla saman tveimur málum, en hann talaði um þetta sama mál í sömu andrá og hann talaði um frumvarpið um frjálsar handfæraveiðar hér áðan. Þá var hann að tala um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi endurskoðun á stjórn fiskveiða, þannig að það er ekki eins og verið sé að blanda saman málum hér hvað það varðar.

Fleiri ályktanir sem sveitarstjórnir hafa sent frá sér. Það má nefna við að utanverðan Eyjafjörð er sveitarfélag sem heitir Fjallabyggð sem sendi frá sér sambærilega ályktun og kom frá Akureyrarbæ. Ef ég man rétt er bæjarstjórnarmeirihluti þar samansettur af Sjálfstæðisflokknum og framsóknarmönnum og þar er bæjarstjórn samhljóða með níu atkvæðum, nánast orðrétt yfirlýsing eins og kemur frá bæjarráði Akureyrar.

Það má vísa til sveitarstjórans í Breiðdalshreppi og víðar. Það er verið að kalla eftir endurskoðun á óréttlátu kerfi og þetta er fyrsta leiðin í því. Það er ekki eins og það sé verið að snúa heiminum á hvolf þó að 2.500 tonnum eða hvað það nú er sé bætt við til að auka frjálsar handfæraveiðar við Íslandsstrendur. Það er ekki eins og hér muni allt fara fjandans til ef það verður leyft, virðulegur forseti.

Það vekur líka athygli mína hversu harkalega og af mikilli hörku andstæðingar þessara breytinga bregðast við hér í þingsal miðað við þau viðbrögð sem urðu í sjávarútvegsnefnd fyrr í morgun, við þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð við undirbúning þessa máls þar sem fulltrúar minni hlutans í nefndinni þökkuðu formanni nefndarinnar fyrir vel unnið starf, fyrir að taka tillit til athugasemda sem hafa borist nefndinni og fyrir að hafa orðið við beiðnum minni hlutans um að taka inn umsagnaraðila og að fá frumvarpið inn til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. Það var varla hægt annað á þeim að skilja en að þeir væru ósköp sáttir við það vinnulag allt saman frá upphafi til enda. Þeir treystu sér reyndar ekki til að styðja þær breytingar sem voru gerðar á frumvarpinu í morgun í nefndinni að ósk Landssambands smábátaeigenda þó að þeir væru í hjarta sínu fylgjandi því eins og heyra mátti á ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan.

Þetta frumvarp finnst mér vera hið besta mál, þetta er framfaramál í sjávarútvegi. Það er verið svo sannarlega að gera tilraun eins og oft hefur komið fram. Það er alltaf og öll mál sem hingað hafa komið varðandi sjávarútveginn eru í því formi til að byrja með, þar á meðal byggðakvótinn sem var lagður fram á Alþingi sem tilraun til að leita sátta í sjávarútvegi en sú leið mistókst og sú reynsla er ólygnust. Hún mistókst rétt eins og stjórn fiskveiða í heild sinni hefur að stórum hluta mistekist, þess vegna er verið að breyta því. Þess vegna verðum við að taka okkur á og hætta að spyrna við gegn handónýtu kerfi sem engu hefur skilað í þjóðarbúið.