137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er djúpt seilst, verð ég að segja, þegar vitnað er til þess að ég tali um fólk sem fífl þegar ég vitna í umsagnir aðila, þegar ég vitna í þær umræður sem hafa farið fram. Hv. þm. Björn Valur Gíslason kýs að snúa út úr máli mínu og kýs að snúa út úr þeirri hvatningu sem hefur komið frá sveitarfélögum um að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið þegar þau sömu sveitarfélög hafa alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem hér er verið að gera, vegna þess að þessar breytingar koma viðkomandi sveitarfélögum mjög illa og smábátasjómönnum sérstaklega á þessum svæðum. Það er alger lágmarkskrafa, virðulegi forseti, að í ræðustól Alþingis sé a.m.k. ekki hallað réttu máli. Og að sjómenn rói út í vitleysuna og taki ekki einu sinni veður, það er ekki eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason þekki ekki vel til sjómennsku. Hann er skipstjóri sjálfur og kemur úr sjávarútvegi, hann þekkir það vel þegar smábátasjómenn búa við slíkt kerfi að þeir eru þvingaðir til að fara á sjó út af þröngum tímamörkum eða þvingaðir til að landa þess vegna á sama stað, að fara aftur inn í þá höfn sem þeir lögðu upp, hann veit vel hvaða slysahætta getur verið fólgin í því þegar hvatinn í kerfinu býður upp á það að menn taki áhættu. Við bendum einfaldlega á að reynt verði að laga þetta, að þær leiðir sem augljóslega eiga fara í gegn í þessu kerfi verði þó öruggari en ella, þær verði öruggari en lagt er upp með í frumvarpinu í dag.

Ég lít ekki á þetta fólk sem vitleysinga og það er einmitt þess vegna, virðulegi forseti, sem við sjálfstæðismenn og minni hlutinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd lagði svo mikla áherslu (Forseti hringir.) á að fá þetta fólk til viðræðu við okkur um þessi mál, fá þetta fólk á fundi nefndarinnar á sama tíma og fulltrúar meiri hlutans sögðu að menn gætu bara sent þetta frá sér í tölvupósti eða faxskeytum til nefndarinnar og komið sjónarmiðum sínum þannig á framfæri.