137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með umræðunni um stjórn fiskveiða í gær og í dag og raunar er það svo að inn í þá umræðu hafa flækst almenn sjónarmið um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni sem ríkisstjórnin hyggst hrinda í framkvæmd. Það má segja að öll umræðan beri þess vitni að menn treysta nú jafnvel meira en oft áður á þá grundvallaratvinnugrein sem sjávarútvegurinn er og hún er kannski að fá meira vægi í sölum þingsins þessa dagana en árin á undan þegar menn voru uppteknari af öðrum hlutum í landinu en að hugsa um þessar grundvallaratvinnugreinar sjávarútveg og auðlindanýtingu.

Einmitt þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason þegar horft er til þess hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir íslenskt samfélag, hvort hann telji virkilega að um kerfi þar sem verið er að úthluta takmörkuðum gæðum geti nokkurn tíma orðið fullkomin sátt. Þetta tal stjórnarliða — ég tek sem dæmi hv. þm. Róbert Marshall sem fer mikinn þar — að það þurfi að gera sátt við þjóðina, það þurfi að kalla inn veiðiheimildir strax til að ná þeirri sátt, telja menn virkilega að í kerfi af þessum toga sé hægt að ná fullkominni sátt? Það er rétt að vinna þarf á ýmsum agnúum sem eru í kerfinu, það er reynt, en annað er að halda því fram að um kerfi sem veitir takmörkuð gæði geti orðið víðtæk og almenn sátt í samfélaginu. Svoleiðis verður yfirleitt aldrei þegar um slík kerfi er að ræða.

Enn fremur langar mig til að spyrja hv. þingmenn hvort hann telji, miðað við þær aðstæður sem íslensk þjóð er í núna þar sem í rauninni allt er meira og minna upp í loft, ástæðu til að fara af stað með breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem geta valdið verulegum óróa, geta valdið viðkomandi fyrirtækjum búsifjum, hvort við Íslendingar þurfum á því að halda núna þegar við þurfum meira en nokkru sinni fyrr að stóla á okkar grundvallaratvinnugreinar til sjávar og sveita.