137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel undir með hv. þm. Ólöfu Nordal varðandi það að við munum þurfa að treysta á sjávarútveginn nú sem aldrei fyrr í þeim hremmingum sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Sjávarútvegurinn hefur kannski aftur fengið þá stöðu í samfélaginu sem hann var í áður fyrr en varð undir í hringavitleysunni sem reið yfir samfélagið á undanförnum árum og keyrði okkur að lokum í þrot.

Ég tel ekki að það muni á endanum nást fullkomin sátt um stjórn fiskveiða, það hvarflar ekki að mér að það náist fullkomin sátt um stjórn fiskveiða. Ég trúi því hins vegar að hægt sé að ná meiri og betri sátt um stjórn fiskveiða en ríkt hefur í samfélaginu undanfarna áratugi og ríkir í dag. Ítrekað benda skoðanakannanir til þess að 70–75% þjóðarinnar séu andvíg því fiskveiðistjórnarkerfi sem er í dag. Það er ekki hægt að líta fram hjá því, þetta eru nánast fastar stærðir í skoðanakönnunum af þessu tagi.

En við þurfum líka, hv. þingmaður, að velta því fyrir okkur hvað fólk segir. Hvað teljum við að fólk sé að segja þegar það segist vera andvígt fiskveiðistjórnarkerfinu? Ég hef ákveðnar skoðanir á því. Allir eru sammála um að takmarka þarf aðgang að þessari auðlind eins og öðrum auðlindum sem ekki eru ótæmandi og að það er ekki sama hvernig það er gert. Um þetta er samstaða meðal þjóðarinnar að mínu viti. Það er hins vegar óánægja með það kerfi sem felst í því að hægt sé að selja eða leigja aflaheimildir á milli staða með þeim afleiðingum sem það hefur haft í för með sér og það sé hægt að selja sig út úr þessu kerfi eins og margir hafa gert á undanförnum árum. Um það snýst málið og um það á endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu fyrst og fremst að snúast, að leita sanngirni.