137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal telur að með væntanlegri endurskoðun á stjórn fiskveiða eigi að fara að eltast við menn sem hafa selt sig út úr kerfinu á liðnum árum. Það stendur alls ekki til. Það stendur ekki til að fara að eltast við menn með því að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Það er langur vegur frá því.

Ég vek athygli á því að hér hafa sjálfstæðismenn flestir hverjir sem komið hafa í þennan ræðustól í dag og í gær sagt að menn væru tilbúnir til að fara í þá endurskoðun. Öðruvísi mér áður brá, hæstv. forseti, því að það er þá í fyrsta skipti í 25 ár sem þeir telja vera tilbúna til þess og guð láti gott á vita hvað það varðar. Þetta er ekki liðin tíð, eins og hv. þm. Ólöf Nordal nefndi áðan, það er enn þá heimild í lögum um stjórn fiskveiða til að selja og leigja og framselja veiðiheimildir á alla kanta við strendur Íslands. (Gripið fram í.) Það er ekki liðin tíð og því þarf að breyta. Það er ekki það versta sem hægt er að gera í ástandi eins og er í dag þegar reynt er að leita leiða til að ná sátt í einni mikilvægustu atvinnugrein á Íslandi, ef ekki þeirri mikilvægustu. (Gripið fram í.) Eiginlega það besta sem hægt er að gera er að leita sátta innan greinarinnar, milli greinarinnar og þjóðarinnar, eins og ég benti á áðan, hv. þingmaður, því að markmiðin með lögum um stjórn fiskveiða hafa ekki náðst. (Gripið fram í.) Við fjarlægjumst með hverju árinu sem líður þau markmið sem sett voru um stjórn fiskveiða fyrir áratugum síðan og þá eigum við bara að endurskoða málin.