137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur og ESB.

[13:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að verið hefur til skoðunar frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu sem fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna hafa komið að og ef ég skil málið rétt er ágæt samstaða um það frumvarp. Ég veit að einn flokkurinn vill hafa það víðtækara en þar er lagt til og þá kemur það fram í þinginu. Um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég veit líka að í utanríkismálanefnd er verið að fjalla sérstaklega um þetta mál m.a. með tilliti til hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu og þá verður það skoðað sérstaklega. Ef farið yrði í aðildarumsókn að Evrópusambandinu og niðurstaðan yrði sú að menn vildu leggja það fyrir þjóðina, sem á auðvitað að gera, væri það frumvarp sem núna er til umræðu meðal stjórnarflokkanna og er á leið inn í þingið, nægjanlegt í mínum huga. Ég held að frumvarpið sé a.m.k. komið til þingflokkanna en það er nægjanlegt til að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að ég er alveg viss um að farið yrði eftir þeirri niðurstöðu sem þar fengist þó að að forminu til sé hún ráðgefandi. En síðan þarf auðvitað að leggja fram breytingu á stjórnarskránni sem slíkri ef menn ganga inn í Evrópusambandið.

Í mínum huga nægir þetta frumvarp, ef að lögum verður, til að fara í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn, ég veit að utanríkismálanefnd fjallar nú um málið. (Forseti hringir.) En það kemur ekki til greina í mínum huga og ég tel það bara óæskilegt að vera með tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) eins og mér fannst hv. þingmaður vera að ýja að.