137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningarnir.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel engar líkur á því að með þessum samningi sé stefnt að gjaldþroti Íslands, eins og hv. þingmaður nefndi. Það eru öryggisákvæði í þessum samningi. Það öryggisákvæði er mjög mikilvægt að ef gjaldþol þjóðarinnar verður þannig þegar kemur að því að Ísland þarf hugsanlega (Gripið fram í.) að greiða skuldirnar eftir sjö ár, að gjaldþolið verði ekki meira en það var í nóvember 2008. Það er mjög mikilvægt ákvæði. Það er líka öryggisákvæði um að ef við fáum hagstæðari lánakjör er hægt að greiða upp þetta lán og taka þá lán á lægri kjörum. Það er grundvallaratriði og er mjög sérkennilegt að reynt sé að halda því fram á þessum degi og í sjónvarpinu í gærkvöldi að með Icesave-samningunum sé hægt að gera aðför að eigum íslenska ríkisins og meira að segja er gengið svo langt að segja að hægt sé að fullnusta þennan samning með eigum ríkisins. Þar eru einnig nefndar auðlindir þjóðarinnar. Það er auðvitað fráleitt og svo langsótt að ég skil ekki hvað vakir fyrir þeim sem setja slík ákvæði fram. (Gripið fram í.) Auðvitað er ekkert slíkt í spilunum og ég hef kynnt mér þennan samning nægilega vel til þess að geta með fullu haldið því fram að við erum ekki (Gripið fram í.) að stefna gjaldþoli ríkisins í hættu með þessum samningi. Þvert á móti eru (Gripið fram í.) þarna öryggisákvæði sem tryggja það að svo verði ekki.