137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-skuldbindingar.

[13:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í rökstuðningi sínum fyrir Icesave-neyðarsamningnum hefur ríkisstjórnin iðulega beitt fyrir sér þeim fullyrðingum að eignir Landsbankans muni duga fyrir stærstum hluta skuldanna. Um þá fullyrðingu er deilt enda er enn á huldu hverjar þessar eignir eru og ómögulegt að geta sér til verðmæti þeirra á grundvelli þeirra upplýsinga sem þó liggja fyrir. Þá hafa ráðamenn fullyrt að strax verði byrjað að greiða inn á höfuðstólinn og það verði gert hratt og örugglega eftir því sem eignir Landsbankans seljist til að lækka höfuðstólinn og draga úr vaxtabyrði.

Breska ríkisstjórnin lagði hald á 230 millj. breskra punda að jafnvirði um 50 milljarða íslenskra króna sem setið hafa vaxtalaust í seðlabanka Englands. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á blaðamannafundi, með leyfi forseta:

„Þar eigum við nú rúmar 230 millj. punda, um 50 milljarða kr. sem losna núna og hægt er að nota til að greiða höfuðstólinn strax.“

Samkvæmt lögum hins vegar er skilanefndum aðeins heimilt að greiða skuldir vegna innlána eftir fyrsta kröfuhafafund eftir að kröfufresti lýkur ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð eftir ákvæðum laga sem nýlega var breytt á Alþingi.

Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Fara þessar 230 millj. punda beint í að greiða niður höfuðstól Icesave-skuldbindinganna eða þarf að bíða þess að hefðbundin kröfumeðferð þrotabús Landsbankans ljúki þar til hægt verður að ráðstafa þeim til lækkunar höfuðstólsins? Getur forsætisráðherra fullyrt að allar eignir Landsbankans muni renna til þess að greiða Icesave-skuldbindingarnar eða þarf innstæðutryggingarsjóður að bíða eins og aðrir kröfuhafar eftir að eignum þrotabúsins verði ráðstafað á lögbundinn hátt? Samkvæmt fréttum stefnir í málsókn á hendur íslenska ríkinu til að fá neyðarlögunum hnekkt. Verði þeim hnekkt, hver verður þá staða innstæðutryggingarsjóðs gagnvart öðrum kröfuhöfum í þrotabú Landsbankans?