137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-skuldbindingar.

[13:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég er eiginlega bara slegin yfir svörum hæstv. forsætisráðherra, sem segir það að hún viti raunverulega ekki hvort við munum geta ráðstafað eignum Landsbankans. Er það ekki meginforsendan fyrir því að við séum tilbúin að samþykkja hugsanlega ríkisábyrgð að ríkisstjórnin segir að eignir Landsbankans muni ganga upp í að greiða lánið sem verið er að taka? Svo er að koma hér fram að hæstv. forsætisráðherra veit ekki hvort svo verður eða ekki. (Gripið fram í.) Við vorum einmitt, af því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kallar fram í, að breyta lögum. (ÁI: Hv. þingmaður veit væntanlega hvernig sú breyting var.) Já, og þar kemur fram, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð. (Forseti hringir.) Og ég spyr: Er verið að segja það að Icesave-skuldbindingarnar njóti hærri stöðu en aðrar kröfur sem eru í þrotabúi Landsbankans?