137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

umferðarmál á Kjalarnesi.

[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég var ásamt fleiri þingmönnum á fundi fyrir nokkrum dögum og ég held að allir sem þar voru geti tekið undir með mér að það ber mjög mikið á milli upplýsinga frá hæstv. ráðherra og borginni. Mjög mikið ber á milli.

Aðalatriðið er að það má engan tíma missa. Ég hvet hæstv. ráðherra til að setjast niður með borginni og ganga frá þessum málum. Þetta eru öryggismál fyrir börnin okkar. Það getur ekki verið flókið fyrir þessa ágætu aðila að fá niðurstöðu í þetta mál.

Hæstv. ráðherra vék eingöngu að undirgöngunum og girðingunum. Þá eru eftir hraðahindranirnar. Það verður að minnka hraðann. Nú fer í hönd mesti ferðatími ársins og það er ekki viðunandi að hafa ástandið eins og það er núna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að ganga í þetta mál með borginni og kynna okkur síðan niðurstöðuna — sem allra fyrst. (Forseti hringir.)