137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[14:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls óskaði minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eftir því að málið gengi að nýju til nefndarinnar til að fara yfir a.m.k. þau nokkur álitaatriði sem höfðu komið fram, bæði í störfum nefndarinnar og eins hér í umræðunni. Þessi nefndarfundur fór fram og afrakstur þeirrar vinnu er m.a. sá sem við sjáum hér í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar sem eru sannarlega til bóta.

Það er alveg ljóst mál að hefði þessi fundur ekki verið haldinn fyrir atbeina minni hluta nefndarinnar stæðum við uppi með enn þá verra mál en raun ber vitni um þrátt fyrir allt. Þetta er til bóta og þess vegna sjálfsagt að styðja þessar breytingartillögur.