137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[14:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er sérstakt að heyra hæstv. ráðherra nefna hér að þetta frumvarp sé til mikils framdráttar fyrir samfélagið. Það liggur fyrir að um vanreifað mál er að ræða og þá sérstaklega strandveiðihluta frumvarpsins. Það er engum blöðum um það að fletta að allflestir, langflestir, eiginlega allir umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina eða sendu henni umsagnir sínar, það er sama hvort um er að ræða samtök sjómanna, útgerðarmanna, sveitarfélaga, ferðaþjónustu, allir hafa mjög alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp og lýsa yfir miklum áhyggjum.

Alvarlegustu áhrif þess verða á hinar veikari byggðir, á þær byggðir sem hafa treyst á byggðakvótann sem grunn að fiskvinnslu í sinni heimabyggð. Það liggja fyrir yfirlýsingar (Forseti hringir.) frá fulltrúum þessara sveitarfélaga sem segja að fiskvinnsla á þeirra stöðum (Forseti hringir.) muni hreinlega leggjast niður verði þetta að veruleika. (Forseti hringir.) Það er ótrúlegt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli leggja þetta fram með þessum hætti. Ég sagði nei.