137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[14:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er með spurningar til hæstv. forsætisráðherra af þessu tilefni. Frumvarpið er um margt athyglisvert og ég fagna því að þarna virðist, alla vega í orði kveðnu, í breyttum titlum ráðuneytanna, vera lögð meiri áhersla á mannréttinda- og menningarmál, það er ánægjuefni.

Mig langar að spyrja í tengslum við þessar breytingar á lögum um Hagstofu Íslands, þar sem Hagstofu Íslands er falið að starfrækja sjálfstæða rannsóknareiningu um afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár o.s.frv., hvort hér sé komið eitthvert ígildi fyrrum Þjóðhagsstofnunar en margir núverandi og fyrrverandi þingmenn hafa verið áhugasamir um að endurreisa þá merku stofnun. Lítur hæstv. forsætisráðherra svo á að hér sé verið að endurvekja Þjóðhagsstofnun?

Mig langar líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra, hún fór aðeins inn á það í ræðu sinni, hvaða málaflokkar verða þá eftir í (Forseti hringir.) forsætisráðuneytinu eða er það markmið frumvarpsins að það verði engir málaflokkar þar?