137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil hæstv. forsætisráðherra svo að það sé að nokkru leyti verið að stofna hér einhvers konar ígildi Þjóðhagsstofnunar. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það standi þá til að efla þennan þátt starfseminnar eitthvað enn frekar, t.d. hvað varðar aðgang stjórnarandstöðuþingmanna að þjónustu þessa þáttar í starfsemi Hagstofunnar?

Það hefur t.d. verið rætt, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi, að ein röksemdin fyrir því að stofna Þjóðhagsstofnun aftur, eða endurreisa hana, sé sú að slík stofnun mundi gagnast þinginu einkar vel og ekki síst stjórnarandstöðuþingmönnum. Ég spyr því hvort þetta sé vísir að einhverju stærra í því samhengi eða einhvers konar stofnun sem muni gagnast þinginu í efnahagsmálum?

Ég ítreka svo fyrri spurningu um það hvort engir málaflokkar verði þá eftir í forsætisráðuneytinu eftir þessar breytingar?