137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það liggi nú alveg í augum uppi að þegar verið er að fækka ráðuneytum, eins og að er stefnt á þessu kjörtímabili, úr tólf í níu, þá eru menn að stefna að því að hagræða.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi varðandi þann sparnað sem kemur þegar verið er að hagræða og sameina innan stjórnkerfisins að það tekur nokkurn tíma þar til hann skilar sér. Þó að það komi ekki fram í þessu frumvarpi að það sé gert, að það muni t.d. gerast á þessu ári, þá er ég viss um það, og ég held að það liggi alveg í augum uppi, að til lengri tíma litið mun verða veruleg hagræðing af þessari breytingu sem ríkisstjórnin er að fara í. Ég held að það sé alveg ljóst og liggi í augum uppi.