137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú alveg óþarfi að gera lítið úr forsætisráðuneytinu þó að þessar breytingar verði á skipulaginu, þetta er lagt til af þessum sérfræðingi sem ég nefndi til þess að hafa þetta allt á einum stað. Ég held að það sé vel til fundið að þetta sé í einu efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

En það er alveg ljóst að þó að þessir þættir flytjist inn í eitt efnahagsráðuneyti munu forsætisráðherra og forsætisráðuneytið að sjálfsögðu fylgjast vel með öllum gangi efnahagsmála. Það er alveg ljóst að með ákveðnum hætti er verið að auka verkstjórnarvald forsætisráðuneytisins. Auðvitað verða reglubundnir fundir haldnir með þeim ráðherrum sem á einn eða annan hátt koma nálægt þessu máli þó að utanumhald sé á einum stað eins og t.d. málefni Seðlabankans, sem hér var nefnt, og Hagstofunnar.

Ég held að til lengri tíma litið muni menn sjá að (Forseti hringir.) skynsamlegt sé að gera þetta með þeim hætti sem hér er gert. Ég bið hv. þingmann (Forseti hringir.) að fara yfir reglugerðina um Stjórnarráðið og sjá að það eru nú töluvert mörg verkefni (Forseti hringir.) eftir í forsætisráðuneytinu þó að þessi breyting verði.