137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er tækifæri til að gera breytingar. Þegar við stöndum illa fjárhagslega er einmitt mjög spennandi að gera svona breytingar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í tvennt. Það er í fyrsta lagi, og það sjá það allir, verið að taka mjög mikið af málaflokkum frá forsætisráðuneytinu en þó er verið að færa til forsætisráðuneytisins nefnd sem heitir nefnd um jafnréttismál. Mig langar að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja um væntingar til hennar af því að stofnanir á sviði jafnréttismála eiga að vera áfram hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Einnig er talað um eitthvað sem heitir ráðherranefnd um jafnréttismál og tel ég það mjög spennandi tækifæri og vil gjarnan heyra meira um það.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég koma með ábendingu til hæstv. forsætisráðherra og spyrja eftir viðbrögðum við henni, ábendingin er sú að það þurfi að skoða hvað ráðuneytin eru hlutfallslega veik miðað við stofnanirnar. Ég er ekki að segja að stofnanirnar séu almennt sterkar en það er alla vega ljóst í mínum huga að ráðuneytin eru allt (Forseti hringir.) of veik.