137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér kemur ekki á óvart að hv. þingmaður skuli spyrja um jafnréttismálin, eins mikinn áhuga og hún hefur á þeim málaflokki. Það var mjög huglægt hvernig fara ætti með þessi mál og stóð til að flytja þau jafnvel alfarið í forsætisráðuneytið. Margir hafa áhuga á því vegna þess að jafnréttismálin falla með einum og öðrum hætti undir hvert einasta ráðuneyti þannig að á margan hátt er skynsamlegt að hafa þau í forsætisráðuneytinu. Innanríkisráðuneytið kom líka upp í huga margra í þessu sambandi en það verður stofnað, eins og ég nefndi hér áðan, síðar á þessu kjörtímabili. Menn vildu aðeins meta hvort það væri þá rétt til frambúðar að fella þessi mál undir innanríkisráðuneytið eða forsætisráðuneytið en töldu rétt að hafa ákveðið verkstjórnarvald að því er varðar þessa hluti í forsætisráðuneytinu. Þar yrði skipaður hópur ráðherra, fjármálaráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra og forsætisráðherra (Forseti hringir.) sem færu reglubundið yfir þessi mál til þess að leggja (Forseti hringir.) áherslu á þennan málaflokk og sjá til þess að ýmsum málum sem þarf að framfylgja, t.d. á sviði framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum, yrði fylgt eftir.