137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns árétta það sem fram kom í andsvari mínu hér áðan að ég tel að það sé skynsamlegt og eigi fullan rétt á sér að gera með reglulegum hætti úttekt á stöðu mála og málaflokka innan Stjórnarráðsins, færa málaflokka til, breyta fyrirkomulagi, þess vegna heitum ráðuneyta, fækka ráðuneytum ef möguleikar eru á því o.s.frv. Ég tel að það sé afar jákvætt að stjórnsýslan sé sveigjanleg að þessu leyti og nái að laga sig að þeim breytingum sem verða í umgjörðinni og í þeim málaflokkum sem undir þau heyra.

Þess vegna fagna ég því að við hér á nýkjörnu þingi fáum tækifæri til þess að ræða um Stjórnarráðið og skipulag þess en ég hefði þó vænst þess þegar frumvarp er lagt fram til breytinga á lögum sem varða Stjórnarráð Íslands að þar kæmi fram einhver skýr heildarsýn á hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þessum efnum. Við þekkjum auðvitað það sem fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra, að ýmis atriði eru nefnd í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sum af þeim eru tiltekin hér, önnur ekki. Ég held að þegar málið er í meðförum þingsins hefði verið miklu æskilegra ef hægt væri að fjalla um breytingar á ráðuneytum á heildstæðan hátt en ekki að taka út mjög afmarkaða þætti eins og hér er gert.

Eftir að hafa farið yfir frumvarpið sýnist mér að frumvarpið sjálft feli fyrst og fremst í sér tvenns konar breytingar, annars vegar er tilflutningur efnahagsmála, sem í dag heyra undir a.m.k. þrjú ráðuneyti, til viðskiptaráðuneytisins, sem á þá að heita efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Það er stóra breytingin sem felst í þessu frumvarpi. Svo eru ýmsar smávægilegar breytingar sem eru fæstar veigamiklar, að mér sýnist, heldur frekar tæknilegar breytingar og tilflutningur á mjög afmörkuðum verkefnum sem ég hef ekki tekið neina afstöðu til. Sumt af því sýnist mér í fljótu bragði vera til bóta, annað hef ég meiri efasemdir um en ég held að það séu allt atriði sem hægt er að ræða með yfirveguðum hætti í allsherjarnefnd þegar málið kemur þangað.

Varðandi stóra málið, þ.e. tilflutning efnahagsmála vil ég áður en lengra er haldið láta í ljósi þá skoðun mína að það sé eðlilegt að þunginn í efnahagsmálum sé í forsætisráðuneytinu. Í dag er það þannig hugsað að þunginn er hjá forsætisráðuneytinu. Fjármálaráðuneytið hefur auðvitað mikilvægu hlutverki að gegna að því er varðar ríkisfjármálin, bæði tekju- og gjaldahlið, auk þess sem það hefur ákveðna áætlunargerð með höndum. Viðskiptaráðuneytið er hins vegar, eins og nafnið ber með sér, annars vegar viðskiptaráðuneyti og hins vegar bankamálaráðuneyti. Ég verð að segja að í ljósi reynslunnar og í ljósi aðstæðna hefði ég frekar talið að ástæða væri til þess að styrkja efnahagsþáttinn hjá forsætisráðuneytinu frekar en að færa efnahagsmálin í heild sinni frá forsætisráðuneytinu og veigamikla þætti frá fjármálaráðuneytinu til viðskiptaráðuneytisins. Það er ólík nálgun. Auðvitað stefnum við öll að því og höfum öll þau markmið að það sé, a.m.k. á einum stað og helst auðvitað víðar, mjög mikill þungi í efnahagsmálunum, varðandi þekkingu á efnahagsmálum og fagmennsku á því sviði.

Ég hefði talið að forsætisráðuneytið þyrfti að hafa það með höndum. Þess vegna hefði ég frekar stutt tilflutning verkefna frá öðrum ráðuneytum til forsætisráðuneytisins, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem eru uppi í þjóðfélaginu þar sem efnahagsmálin eru langsamlega mikilvægasta viðfangsefni allra stjórnvalda, allrar ríkisstjórnarinnar, og vandséð annað en að forsætisráðuneytið og forsætisráðherra þurfi hvort sem er ekki aðeins að vera með fingurinn á púlsinum heldur líka með daglega stjórnun á mörgum þáttum efnahagsmála, samskiptum við aðila, t.d. aðila vinnumarkaðarins, samskiptum við erlenda aðila, sérfræðistofnanir og ég veit ekki hverja og hverja. Forsætisráðuneytið mun þurfa að sinna þessu hvort sem er.

Forsætisráðherra mun þurfa öfluga efnahagsráðgjafa eftir sem áður. Ég sé ekki að sú breyting verði að hægt sé að flytja efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins út úr forsætisráðuneytinu án þess að í staðinn komi sérfróðir aðilar sem veitt geti forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnar góð ráð um stöðu efnahagsmála. Það er sjónarmið, við erum ekki kannski sammála um það, það er hægt að nálgast þetta með ýmsum hætti. Eins og staðan er hefði ég frekar talið að rétt væri að styrkja efnahagsþáttinn í forsætisráðuneytinu en að færa verkefnin á því sviði þaðan.

Það var reyndar athyglisvert að heyra orðaskipti hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og forsætisráðherra hæstv. áðan um jafnréttismálin þegar talað var um að til þess að veita jafnréttismálum meira vægi ætti að setja þau undir forsætisráðuneytið. Nefnt var að jafnréttismálin kæmu við sögu í flestum ráðuneytum. Ég bendi á að hægt er að segja það nákvæmlega sama um efnahagsmálin, efnahagsmálin koma öllum ráðuneytum við. Efnahagsmálin eru ekki einangraður málaflokkur í þeim skilningi að hann snerti ekki svið hvers einasta ráðuneytis hvort sem um er að ræða atvinnuvegamálaráðuneytin, umhverfisráðuneytið, utanríkisráðuneytið eða hvað þið viljið nefna, efnahagsmálin eru alls staðar nálæg. Með sömu rökum og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir töluðu um að eðlilegt væri að færa jafnréttismálin til forsætisráðuneytisins vil ég segja að mér finnst eðlilegt að efnahagsmálin séu hjá forsætisráðuneytinu.

Auðvitað vitum við, eins og hæstv. forsætisráðherra gat um í ræðu sinni, að þessum málum er skipað með mjög mismunandi hætti í löndunum í kringum okkur. Sums staðar eru efnahagsmálin hjá leiðtoga ríkisstjórnarinnar, stundum eru þau hjá fjármálaráðherra, stundum er um að ræða sérstakt efnahagsmálaráðuneyti, það er hægt að velja mjög mörg mismunandi „módel“ í því sambandi. Ég verð að játa að ég hef ekki á þessari stundu forsendur til að dæma nákvæmlega um það en fyrst farið er út í einhverjar breytingar á þessu sumri hefði ég haldið að réttara væri að fara þá leið sem ég talaði hér fyrir, að veita efnahagsmálunum meira vægi í forsætisráðuneytinu og hugsanlega að færa þá verkefni til forsætisráðuneytisins. En látum þeirri umræðu lokið, við getum deilt um þetta og það er enginn sannleikur í þessu.

Það er annað atriði sem ég vildi víkja að í þessu sambandi og það varðar undirbúning þessa máls. Ég les greinargerð með frumvarpinu og velti því fyrir mér þegar ég skoða hvaða undirbúningur hefur átt sér stað í aðdraganda þessarar tillögugerðar. Ég kem ekki alveg auga á að greint sé frá því hvernig þessar tillögur verða til. Ég minnist þess að þegar fram komu tillögur um breytingar á Stjórnarráðinu haustið 2007 var að baki nokkurra mánaða vinna innan Stjórnarráðsins þar sem lagt var upp með töluverðar skipulagsbreytingar. Ég er ekki alveg klár á því eftir að hafa lesið almennar athugasemdir við frumvarpið hvers konar vinna hefur átt sér stað í aðdraganda þessa frumvarps og mér er heldur ekki ljóst eftir að hafa lesið þetta hvernig handbók um framlagningu og samningu lagafrumvarpa hefur verið fylgt við undirbúninginn, hvernig hefur t.d. verið haft samráð við hagsmunaaðila, þær stofnanir sem málið varðar og annað þess háttar, mér er það bara ekki ljóst. Ég held því ekki fram að ekki hafi verið um slíkt samráð að ræða, ég veit það ekki, en frumvarpið ber ekki með sér að neitt slíkt samráð hafi átt sér stað. Það kemur ekkert fram í frumvarpinu um að talað hafi verið við stofnanirnar, að talað hafi verið við hagsmunasamtök sem koma að þessum málum eða aðra aðila sem það gæti hugsanlega varðað.

Ég velti því fyrir mér og spyr hæstv. forsætisráðherra í því sambandi hvort henni finnist þetta mál vera þess eðlis að ekki sé ástæða til þess að fara eftir leiðbeiningum handbókarinnar um undirbúning lagafrumvarpa og þá hvers vegna eða hvort þær leiðbeiningar, tilmæli og athugasemdir sem fram koma í handbókinni séu einfaldlega þess eðlis að ekki sé ástæða fyrir ráðuneytið að taka mark á þeim þegar lagafrumvörp eru samin. Er handbókin eitthvað sem við þurfum ekki að hugsa um eða eru einhverjar sérstakar ástæður sem gera það að verkum að handbókinni er ekki fylgt þegar undirbúningur lagafrumvarpa á sér stað? Gæti hæstv. forsætisráðherra í leiðinni upplýst aðeins um aðdraganda þessa máls og undirbúning fyrir utan það sem við vitum að stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? Stefnuyfirlýsing pólitískrar ríkisstjórnar er auðvitað ekki faglegur undirbúningur að samningu lagafrumvarpa, alla vega ekki mér vitanlega.

Ég vildi að lokum, hæstv. forseti, árétta að í þessu frumvarpi er ekkert vikið að hagræðingu eða sparnaði, ekki er gert ráð fyrir því að þetta frumvarp hafi í för með sér hagræðingu eða sparnað. Fjármálaráðuneytið gerir ekki ráð fyrir því í mati sínu að um verði að ræða kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, fjármálaráðuneytið gerir ekki ráð fyrir því en það gerir heldur ekki ráð fyrir því að um neina hagræðingu verði að ræða enda er ekki verið að leggja niður nein verkefni, það er bara verið að færa þau til.

Fjármálaráðuneytið segir í fjárhagsmati sínu á frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins og þeirra breytinga sem um er fjallað í athugasemdum á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Í fjárlögum munu áhrifin koma fram í tilflutningi fjárlagaliða og fjárheimilda milli ráðuneyta. Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra ófyrirséðra útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega.“

Fjármálaráðuneytið gerir sem sagt ráð fyrir því að kostnaðaráhrifin af frumvarpinu sem slíku verði núll, að ekki verði um að ræða aukinn kostnað og að ekki verði um að ræða minni kostnað. Ekki verður ráðið af því sem stendur í þessu fjárhagsmati að þessar breytingar sem er verið að fjalla um í frumvarpinu leiði til neins sparnaðar í framtíðinni, það eru ekki neinar ráðagerðir um það.

Þess vegna ítreka ég þá spurningu sem ég lagði fram í andsvari hér áðan: Af hverju nota menn ekki tækifærið fyrst lögin sem varða Stjórnarráð Íslands eru opnuð, og taka ákvarðanir um tillögugerð um breytingar þar, að ná fram einhverjum sparnaði, einhverri þeirri hagræðingu sem allir eru sammála um, og ég efast ekki um að hæstv. forsætisráðherra er sammála, að æskilegt er að ná fram? Af hverju er verið að leggja í þessa vinnu og koma með þetta frumvarp inn í þingið án þess að þar sé einhver heildarmynd af því sem gera á? Þarna er bara brot af því sem á að gera í Stjórnarráðinu. Fyrst menn eru að leggja upp í þennan leiðangur, svo vinsælt orðalag sé notað, af hverju er ferðin þá ekki notuð til þess að ná fram einhverjum sparnaði eða einhverri hagræðingu?