137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Frá því að ríkisstjórnin kynnti áform um Icesave-samningana á þann hátt að samningurinn væri góður — mjög góður, sögðu sumir, og jafnvel stórglæsilegur — hefur komið á daginn að allt það sem stjórnin hafði fram að færa sem rök fyrir því að þetta væri góður samningur, eðlileg og æskileg niðurstaða, hefur reynst rangt. Því var haldið fram að ekki hefði verið um annað að ræða en að semja um það sem raunin varð vegna þess að undirritað hefði verið minnisblað í fyrrahaust sem hefði orðið til þess að menn ættu engan annan kost, það væri sem sagt með minnisblaði búið að skuldbinda ríkið, og þetta minnisblað hefði elt núverandi ríkisstjórn eins og draugur.

Svo kemur fram að hæstv. forsætisráðherra hafði nýverið samband við forsætisráðherra Bretlands, landsins sem réðist að okkur með beitingu hryðjuverkalaga, og gerði honum ljóst að til stæði að semja við Breta, íslensku samninganefndinni hefði verið falið að semja við Breta á grundvelli þessa minnisblaðs, minnisblaðsins sem menn þóttust hafa verið á harðahlaupum undan, minnisblaðsins sem sagt var vera eins og draugur sem elti þessa nýju ríkisstjórn. Hæstv. forsætisráðherra magnaði upp þennan draug og tilkynnti forsætisráðherra Bretlands að á þessum nótum yrði samið. Þetta hlýtur að vera nýtt met í samningatækni Samfylkingarinnar sem er búin að koma íslensku þjóðinni í þá stöðu sem hún er í nú í þessu Icesave-máli og hófst með því að menn vonuðust til að ef við sýndum ákveðinn velvilja og segðumst vera reiðubúin til að taka á okkur skuldbindingar — sem okkur ber ekki lagaleg skylda til — ef við segðumst vera tilbúin til að taka þetta á okkur yrði okkur líklega sýnd miskunn, sýnd linkind, sýnt þakklæti fyrir að taka þetta á okkur. Annað hefur heldur betur komið á daginn og sú hefur verið raunin í þessu máli alla tíð, það kemur á daginn að ekkert stenst sem haldið er fram.

Þegar þessi samningur var kynntur var talað um að 250–300 milljónir punda lægju tilbúnar í Englandsbanka og að strax við undirritun væri hægt að ná í þessa peninga og byrja að borga niður skuldirnar. Svo kemur á daginn núna að þessir peningar sitja fastir sem fyrr og ástæðan er sú að það er óljóst hvernig þeir eiga að skiptast. Íslendingar eru að taka á sig miklu meiri skuldbindingar en sem nemur þessari margumræddu 20.000 evra skuldbindingu Evrópusambandsins. Aðeins helmingur af eignum Landsbankans fer í það, hinn helmingurinn fer til annarra kröfuhafa en þó ekki allra kröfuhafa. Þar er gert upp á milli kröfuhafa með hætti sem mjög hæpið er að fái staðist og með því móti setur íslenska ríkið sig í stórkostlega hættu gagnvart þeim kröfuhöfum sem gengið er fram hjá.

Það var fullyrt að við fengjum sjö ára skjól með undirritun þessa samnings. Flestum má nú vera ljóst hversu fráleitt er að halda því fram að þessar gríðarlegu skuldbindingar hafi ekki áhrif á ríkið vegna þess að þær komi ekki til greiðslu fyrr en eftir sjö ár. Nú er meira að segja komið í ljós að getið er um það í samningunum að uppfylli íslenska ríkið ekki tiltekin skilyrði eða innstæðutryggingarsjóðurinn, eitt af fjölmörgum skilyrðum — óvenjulegum skilyrðum, skilyrðum sem lögmenn sem leitað hefur verið ráða hjá hafa aldrei séð í samningi áður — sé strax hægt að gjaldfella allt lánið, hvenær sem er á þessu sjö ára tímabili eða eftir það. Það verður þá lítið úr þessu sjö ára skjóli eftir allt saman fyrir utan það að halda því fram að þetta veiti skjól af því að það er í framtíðinni ber bara vott um það að ríkisstjórnin tekur á öllum vanda með því að reyna að fresta honum, ýta honum fram fyrir sig og stinga höfðinu í sandinn.

Því var haldið fram að þetta hefði ekki áhrif á lánshæfismat. Hvernig í ósköpunum á það að vera að það hafi ekki áhrif á lánshæfismat að taka á sig þessar gífurlegu skuldbindingar? Þá segja menn: Vissu menn ekki af þessu fyrir? Nei, menn hljóta að hafa gert ráð fyrir því að farið yrði að því sem þingið lagði upp með og því sem okkur þingmönnum var sagt, að Bretar og Hollendingar hefðu fallist á að koma til móts við okkur í ljósi efnahagsaðstæðna hér. Svo er það ekki gert. Hvernig taka lánshæfismatsfyrirtækin á því?

Því var haldið fram að þetta mundi draga úr óvissu. Óvissan hefur aldrei verið meiri. Framtíðarhorfurnar geta sveiflast dag frá degi, bara eftir hagspám um það hvernig efnahagsástandið verður næstu árin, eftir nýjum upplýsingum um lánshæfismat, vexti eða hvaðeina, þannig að við getum horft upp á tugmilljarða króna sveiflur dag frá degi í framtíðarstöðu íslenska ríkisins. Óvissunni var aldeilis ekki eytt.

Svo var talað um að þetta væru góðir vextir. Margir hagfræðingar hafa komið fram og bent á að það sé ekki alveg rétt túlkun og þá er sagt: Ja, miðað við aðra lánasamninga. Þetta er samningur milli þriggja ríkja sem er gerður við mjög óvenjulegar aðstæður þar sem eitt ríkið er í gríðarlegum efnahagsvandræðum, er að gera pólitískan samning og var búið að fá fyrirheit um aðstoð við að komast í gegnum vandann. Að bera vextina á þessum samningi saman við vexti sem einhver áhættufjárfesting fær er náttúrlega algjörlega fráleitt.

Því var haldið fram að við hefðum verið beitt þvingunum. Þó er það aldrei sagt berum orðum, það er gefið í skyn. Hvað gerist svo? Utanríkisráðherrar Norðurlanda koma og segja: Þessir samningar um lán frá Norðurlöndum höfðu ekkert með Icesave að gera, það var ekki skilyrði. Samt er því haldið mjög á lofti að ef við gengjum ekki að þessum samningum kæmi eitthvað voðalega slæmt fyrir okkur, eitthvað ógurlegt, við mundum einangrast, við yrðum ein í heiminum. Ég efast ekkert um að Evrópusambandinu er mikið í mun að við tökum á okkur þessar ábyrgðir, enda er um að ræða galla í regluverki Evrópusambandsins. Skárra væri það nú, þeir hljóta að vilja komast hjá því að sá galli setji allt í uppnám. Hann hefði átt að vinna með okkur og styrkja samningsstöðu okkar en, nei, hann virðist ekki hafa gert það. Vegna þess að Evrópusambandið hafði svo miklar áhyggjur af því að allt innstæðutryggingakerfið og allt bankakerfi Evrópu gæti hrunið töldum við að við þyrftum nauðsynlega að ganga að skilyrðum þess.

Svo er því haldið fram að í þessum samningi — og hæstv. fjármálaráðherra veifaði samningnum — væri ákvæði sem mundi bjarga okkur ef allt færi á versta veg, flóttaleið svoleiðis að við þyrftum ekki að hafa svona miklar áhyggjur. Hvernig er þetta ákvæði? Það er þess eðlis að komi í ljós að Ísland geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, sé lent í enn meiri vandræðum en við erum í núna, skuldbinda Hollendingar og Bretar sig til að setjast niður með fulltrúum Íslands á fundi og ræða málið, ekki meira en það. Þeir ætla að setjast niður á fundi og ræða málið, sjá hvort eitthvað er hægt að gera. Þetta er flóttaleiðin sem hæstv. fjármálaráðherra boðar sem lausn þessa máls.

Ósvífnast af öllu væri líklega að halda því fram að þetta mundi styrkja gengi íslensku krónunnar. Það getur hver sem er séð að það að skuldbinda ríki svona gríðarlega í erlendri mynt, taka stóran hluta af tekjum ríkisins í erlendri mynt á hverju ári og leggja til hliðar, getur ekki annað en veikt gengið verulega enda hefur gengið fallið hratt síðan og verður að öllum líkindum veikt a.m.k. næstu 15 árin og líklega lengur en það.

Ekkert hefur því staðist, ekkert hefur staðist sem sagt hefur verið um þennan samning og samt ætlast hæstv. fjármálaráðherra og þessi ríkisstjórn til þess að við trúum því að þetta verði allt í lagi því að líklega munum við geta staðið undir þessu — líklega — og ef ekki, verði líklega komið til móts við okkur af þessum sömu löndum og búin eru að þvinga okkur til að gangast í ábyrgðir fyrir það sem við bárum ekki lagalega skyldu til og getum ekki staðið undir. Það er ekki boðlegt að ætlast til þess að alþingismenn staðfesti þennan samning.