137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að ræða þetta mál aftur, það var gert hér þarsíðasta mánudag í framhaldi af því að samningar tókust milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar. Þeir voru undirritaðir að kvöldi 5. júní sl.

Ég geri tvær athugasemdir við málflutning málshefjanda, örstutt. Sú fyrri varðar það að ég kannast ekki við að forsætisráðherra Íslands hafi tilkynnt Bretum, hvorki núverandi né fyrrverandi forsætisráðherrar okkar, að við vildum ganga til samninga á grundvelli minnisblaðsins við Hollendinga. Það eru mér nýjar fréttir (Gripið fram í.) ef þetta er staðreynd. Já, ég sé að heimildin er traust hjá hv. þingmanni. (SDG: … staðfestingarblaðið …)

Í öðru lagi verð ég að gera þá athugasemd að það að tala um þetta mál í samhengi við gengi krónunnar eða lánshæfismat eins og að þessar kröfur og þetta mál hafi ekki legið fyrir eða eins og að það hverfi ef ekki er samið um það er dálítið sérkennilegt. Ætli það sé svo gott að það geti gufað upp frekar en skuldir? Þetta hefur hangið yfir Íslandi, allir hafa vitað það, lánsmatsfyrirtæki sem og aðrir, og það er ærin ástæða til að ætla að það sé fremur til bóta og eyði óvissu að ganga frá því en að hafa það þannig áfram.

Varðandi aðgang að upplýsingum um þetta mál vil ég í fyrsta lagi segja að það er litið svo á af hálfu viðsemjenda okkar, og reyndar ekki um það deilt, að hér er um að ræða lánasamning einkaréttarlegs eðlis. Það er almennt ekki venjan að gera slíka samninga opinbera nema allir aðilar samþykki það. Engu að síður óskaði íslenska ríkið eftir því að fá að gera samningana opinbera, í öllu falli að tryggja aðgang alþingismanna að þeim og alveg frá því að samningurinn var undirritaður hafa bréfaskriftir verið í gangi milli Íslands og gagnaðilanna um þetta mál. Það er því fjarri öllum sanni að vilja hafi skort til þess af hálfu okkar að gera málin opinber, það er þvert á móti öfugt, og enn er það svo að það er andstaða við að þessir samningar séu gerðir að fullu og öllu opinberir og var m.a. áréttuð í dag af hálfu annars aðilans og sendiherra þess ríkis á Íslandi. Engu að síður er ætlunin að gera það eins og nú er í pottinn búið.

Varðandi tvennt efnislega sem borið hefur upp í umræðunni frá því í kvöldfréttum sjónvarpsins er það í fyrra lagi ákvæðið um lögsögu í þessu máli. Eins og þeir þingmenn nú sjá sem hafa fengið samninginn er í báðum tilvikum gert ráð fyrir því að bresk lög og breskir dómstólar hafi lögsögu. Það er venja í alþjóðlegum lánasamningum að um ágreining gildi annaðhvort lög þess ríkis sem veitir lánið eða bresk lög. Það skýrist m.a. af stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar og þeirrar sterku og ríku hefðar sem breskur réttur hefur um allan heim á þessu sviði.

Það varð því að samkomulagi þrátt fyrir óskir okkar um annað, sem hefðum gjarnan og að sjálfsögðu viljað íslenska lögsögu í þessu eða óháða lögsögu, að fallast á þessa niðurstöðu í samræmi við venju. Má til samanburðar nefna að í þeim lánasamningum sem eru í burðarliðnum við Norðurlöndin og í þeim tilvikum þremur þar sem ríki lánar ríki, þ.e. sænska, finnska og danska ríkið, er lögsagan í heimaríki lánveitandans.

Annað atriði hefur mönnum orðið tíðrætt um og það er sú takmörkun friðhelgisréttinda sem er að finna í samningnum. Ísland nýtur að þjóðarrétti friðhelgi og friðhelgisréttinda í lögsögum annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir því að lagaleg úrlausn deilumála vegna samningsins gætu gengið fram ef ekkert væri við því gert. Því er það föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja þessum friðhelgisréttindum til hliðar. Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi í landinu þar sem friðhelgin er, þ.e. í lögsögulandinu. Án slíks fráfalls friðhelgisréttinda væri hvorki hægt að stefna máli né reka það eða koma því fyrir dómstóla.

Ákvæði þetta hefur engin áhrif á innanlandsrétt. Það skapar því ekki á nokkurn hátt grundvöll fyrir aðför að eigum íslenska ríkisins hér á landi. Öll umræða um að með ákvæðinu hafi verið opnað fyrir aðför eða fullnustu á eigum íslenska ríkisins hér á landi er því úr lausu lofti gripin. Það er auðvitað enn langsóttara og fráleitara að tala um mögulega aðför að íslenskum náttúruauðlindum í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Þetta er ósköp einfaldlega þannig að í samningnum gengst íslenska ríkið við því að verja sig ekki með friðhelgi sinni í viðkomandi landi ef bera þarf ágreining um samninginn fyrir dómstóla.

Það er líka rétt að minna á í öllu þessu samhengi að eignir Landsbankans eiga að stærstum hluta að standa undir skuldinni og ábyrgð ríkissjóðs er eftirstæð í þessu máli. Öll rök standa til þess að íslenska ríkið muni ráða vel við skuldbindingarnar eins og nú horfir. (Gripið fram í.) Það er líka rétt að minna á að þetta verður að skoða í samhengi við það öryggisákvæði um breyttar forsendur sem eru í samningnum. Fari svo að staða Íslands breytist til hins verra frá því að metið var í október, fari svo að Ísland lendi í erfiðleikum með að standa við greiðslur sínar á árunum 2016–2024, eigum við rétt í samningnum til þess að óska eftir viðræðum um endurupptöku hans. Viðmiðin eru annars vegar það sem stendur í samningnum sjálfum og hins vegar hin sameiginlegu viðmið frá 19. nóvember sl. Og hver voru þau? Þau voru þess eðlis að gera ætti Íslandi kleift að endurreisa fjármálastofnanir sínar og efnahag. Það er þess vegna alveg ljóst að frumvarp sem hér mun koma til laga um ríkisábyrgð verður með fyrirvörum um greiðsluþol ríkisins að þessu leyti og gagnvart fullveldi ríkisins.

Af framansögðu er ljóst, virðulegur forseti, að það er með öllu ástæðulaust að hafa af því áhyggjur eins og borið hefur á í gærkvöldi og í dag að hér sé á nokkurn hátt um að ræða gjörning sem sé óvenjulegur eða sérstakur og sem stofni á nokkurn hátt hættur hvað varðar stöðu íslenska ríkisins og eignir þess og auðlindir hér á landi. Færi einhvern tímann svo að að undangengnum árangurslausum tilraunum til að endurskoða samninginn að ágreiningur lenti fyrir dómstóla yrði málsvörn Íslands væntanlega sú að um forsendubrest væri orðið að ræða og málið færi þá allt til umfjöllunar í því samhengi. Það er ekki, virðulegur forseti, ástæða til að hafa þær áhyggjur sem menn hafa hér uppi haft.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér svo rækilega og vel öll þau gögn sem fram verða reidd með þessu máli þegar það kemur hingað til þingsins. Nú hafa menn (Gripið fram í: … samninginn.) samninginn undir höndum. (Gripið fram í: Nei.) Ég verð að leyfa mér að segja að ég tel að það þjóni takmörkuðum tilgangi í þessu vandasama máli að ala á tortryggni og hræðslu gagnvart almenningi sem fyrir er illa svikinn og sár og treystir fáu. Ég held að við Íslendingar ættum að sameinast um það að trúa á það að við ætlum sjálf að vinna okkur í gegnum þessa erfiðleika á eigin fótum og gera það sem uppistandandi þjóð. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Hvað hefur breyst í …?)