137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst framan af þessari umræðu að hún hafi verið tekin á röngum forsendum. Hún hefur verið rekin áfram í þingsal á þeirri forsendu að sá samningur sem nú er í höfn við Breta og Hollendinga sé miklu betri en samningurinn sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að gera. Það stenst auðvitað enga skoðun. Upp á síðkastið hefur okkur verið sagt að það sé eitt og annað í þessum samningi sem eigi að veita okkur öryggi, sannfæringu um að jafnvel þó að hlutirnir mundu þróast á versta veg sé búið að tryggja í samningnum sjálfum að við eigum undankomuleið.

Ég get ekki betur skilið þegar hæstv. forsætisráðherra, og núna hæstv. fjármálaráðherra, kemur hér upp og fjallar um þennan samning en að virðulegir ráðherrar séu ánægðir með hann og séu að reyna að telja okkur trú um það og þar með þjóðinni allri að samningurinn sé bara býsna góður og að með honum séu þau vandamál sem tengjast innstæðum Íslands, Landsbankans í útlöndum, leyst og við getum farið að snúa okkur að öðru.

Ekkert af þessu stenst skoðun. Ekki eitt af þessu stenst skoðun. Öryggisákvæðið sem okkur var kynnt í fjölmiðlum um daginn, öryggisákvæðið sem svo rík áhersla var lögð á, er auðvitað bara loft, gjörsamlega innihaldslaus yfirlýsing viðkomandi stjórnvalda um að ef íslenska ríkið lendir í meiri greiðsluvanda en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat að ríkið væri í sl. nóvember sé hann tilbúinn til að ræða við okkur um það hvort hann muni bregðast við því með einhverjum hætti. Hann er tilbúinn að ræða við okkur hvort hann muni gera það. Hann er ekki tilbúinn til þess að skrifa upp á samning þar sem hann lofar því að það verði gert. Nei, hann er tilbúinn til þess að ræða við okkur um það hvort það komi til greina.

Ég verð að segja að öll sú umræða sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum og kemur nú fram frá hæstv. fjármálaráðherra um fullveldið og ákvæði samningsins sem okkur hefur nú loksins verið kynntur er afar einkennileg. Það er eiginlega þannig með flest það sem hæstv. ráðherrar forsætis og fjármála hafa túlkað ofan í okkur með samningi sem þau ætluðu örugglega ekki að sýna okkur. Það stenst ekkert af því sem verið er að túlka úr þessum samningi, ekki nokkur skapaður hlutur, svo sem að það sé bara eðlilegt, og sjálfsögð venja í samningum á milli ríkja, að gefa frá sér réttinn til þess að bera fyrir sig fullveldið og komast undan málssókn annars staðar. Að það sé vísað til einhverrar samningsvenju þegar við erum að ræða um samninga sem eru álíka stórir og fjárlög íslenska ríkisins. Yfir þúsund milljarða samningur. Og það er veittur aðgangur að eigum Íslendinga, til að mynda erlendis. Það er ekki hægt að lesa þennan samning öðruvísi. Við munum fá lögfræðilegt álit um þetta efni, en samningurinn er alveg skýr um það að til að mynda væri hægt að ganga að sendiráðum Íslands erlendis ef menn lentu í vanskilum. Ekki bara vanskilum í þessum samningi, nei, ef íslenska ríkið lendir einhvers staðar annars staðar í einhverjum öðrum samningi í vanskilum er hægt að gjaldfella þennan samning upp á þúsund milljarða. Það er hægt að gjaldfella hann allan og byrja að ganga að eigum íslenska ríkisins, eftir atvikum í útlöndum eða annars staðar.

Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur og þegar ég segi að umræðan sé tekin á röngum forsendum segi ég: Við eigum að vera að ræða um það hér hvað mundi gerast ef þessi samningur yrði ekki staðfestur. Og við skulum spyrja eftir því hvers vegna ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir tveir hafi ekki eytt allri óvissu um það að hér sé meiri hluti fyrir samningnum á þinginu. Það eru stjórnarflokkarnir sjálfir sem valda allri óvissunni og óróanum í tengslum við þetta mál. Þeir treysta sér ekki til að eyða henni.

Og ég fullyrði að það er ástæða fyrir því, mjög einföld. Hún er þessi: Þingmennirnir í þessum sal eru ekki að fara að staðfesta þennan samning. [Lófatak og háreysti á þingpöllum.] Það er ástæðan og það er hin dapurlega staðreynd. Þess vegna er dapurlegt að ekki hafi verið haft ríkara samráð við þingmenn stjórnarandstöðunnar áður en gengið var til samninganna. Við þurfum núna að fara að ræða það hvaða staða er komin upp þegar þessi samningur verður ekki (Forseti hringir.) staðfestur vegna þess að hann hefur ekki staðist neinar væntingar sem ríkisstjórnin hefur gefið um innihald.