137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að þessi umræða er tekin á röngum forsendum. Hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag gefa sér þá forsendu, sem verður aðallega til í þeirra eigin hugskoti, að ríkisstjórnin hafi farið um með fagnaðarlátum og trumbuslætti og talið að þetta væri sérstaklega og einstaklega góður samningur. (Gripið fram í: … gert það.) (ÞKG: Glæsileg niðurstaða.) (Gripið fram í: Glæsileg niðurstaða.)

Ég minni á það að þegar hæstv. fjármálaráðherra hélt ræðu sína hið fyrsta sinni um efni þessa samnings talaði hann ekki með þeim hætti. Hann sagði að þetta væru mjög erfiðir samningar. (Gripið fram í: … viðtal við forsætisráðherra.) Ég segi það alveg klárt og hef sagt það mörgum sinnum í þessum sal að ég tel að þetta séu einhverjir erfiðustu samningar sem nokkur ríkisstjórn hefur nokkru sinni gengið til. Það er fjarri því að hægt sé að halda því fram að það sé eitthvert tilefni til að gleðjast yfir þessum samningi.

Hitt er rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, menn ættu að velta fyrir sér hvað það mundi kosta okkur ef menn gerðu ekki þennan samning. Staðan er einfaldlega þannig að í þessari erfiðu og þröngu stöðu sem við Íslendingar erum í tel ég að við þessar aðstæður hafi verið rétt að ganga til samninga á þeim forsendum sem er að finna í samningnum.

En ég sagði líka um daginn í umræðu að ég hefði glaður gefið vinstri höndina til að það væru skaplegri vaxtakjör en eru í samningnum. En hv. þm. Bjarni Benediktsson segir: Þingmenn ættu heldur að ræða um það hér hvað það mundi kosta okkur sem þjóð ef þessi samningur yrði ekki gerður.

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur þegar fyrir sitt leyti svarað þessari vangaveltu í ræðu sem hann hélt 5. desember. Þar lýsti hann því með nokkuð skýrum hætti hvers vegna menn ættu heldur að ganga til samninga en, eins og hann sagði, að festa sig í einhverjum lagadeilum. Og hann lýsti því þar, alveg eins og kom fram í nefndaráliti meiri hlutans þá, hvað það mundi kosta okkur að axla ekki samninga.

Þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur hingað sem formaður Framsóknarflokksins finnst mér sem hann setji allt á hvolf miðað við það sem hann hefur áður sagt. Hvað hefur þessi hv. þingmaður áður sagt um það hvernig ríkisstjórnir eiga að vinna og hvernig þingmenn eigi að vinna þegar þeir eru að skoða erfiða hluti eins og þessa? Jú, eins og þegar við vorum að ræða efnahagsaðgerðir hér fyrr í vetur og hann var nýorðinn formaður Framsóknarflokksins sem þá veitti minnihlutastjórn hlutleysi krafðist hann þess að faglegir, hlutlausir aðilar úr akademíunni kæmu að. Hann kallaði sjálfur til einn slíkan, Jón Daníelsson, sem er kennari við London School of Economics. Hann var sérstaklega skipaður hagfræðilegur fulltrúi Framsóknarflokksins.

Tekur hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki mark á þessum skipaða fulltrúa sínum frá því í vetur? Nei, hann gerir það ekki. Hví segi ég þetta? Vegna þess að Jón Daníelsson hefur sagt að það sé óhjákvæmilegt að samþykkja þennan samning. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur talað um að við ættum að fara upp í háskóla og leita að fólki sem hefur vit á þessum hlutum. Einn af þeim mönnum sem hv. þingmaður hefur kallað til liðsinnis og ráðslags við Framsóknarflokkinn er Gylfi Zoëga. Sá ágæti maður er prófessor í hagfræði. Hv. þm. Sigmundur Davíð veit ekki um nokkurn samning sem er jafnvondur og sá sem hér er til umræðu. Hann talar sérstaklega um vaxtakjörin. Hvað segir þessi ágæti maður uppi í háskóla sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur stundum sagt að við ættum að hlusta á og hefur sjálfur kallað til ráðslags? Hann hefur sagt að þetta séu hagstæðir vextir miðað við það sem gerist á alþjóðlegum lánamörkuðum. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur líka sagt að við verðum að reikna út gjaldþol okkar og skoða það. Til þess eigum við að fá hverja? Jú, akademíuna, sjálfstæða, óháða, hlutlausa fræðimenn. Nú, það vill svo til að einn þeirra hefur þegar gert það. Hann hefur birt útreikninga sem Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert.

Þegar Framsóknarflokkurinn segir að þessi samningur, sem ég fellst alveg á að hefði mátt vera betri fyrir íslenska hagsmuni — (Gripið fram í: Nú?) ja, ég hef alltaf sagt það, samanber vinstri höndina — en hv. þm. Sigmundur Davíð hefur aldrei birt neina útreikninga sem sýna að þetta muni reyra íslensku þjóðina í viðjar fátæktar. Uppi í háskóla er hagfræðiprófessor sem hefur birt slíka útreikninga. (Gripið fram í: Neei.) Uppi í háskóla er Þórólfur Matthíasson prófessor, [Hlátur og háreysti í þingsal.] ja, eru menn að efast um hlutleysi háskólans? Þá skulu menn bara fá aðra til þess. (Gripið fram í.) En sá ágæti maður hefur sagt að vissulega verði þetta blóðtaka, að þetta verði erfitt og sé óvissu undirorpið. En hvað þýðir það? segir hann. Jú, það gæti þýtt það (Forseti hringir.) sama og að skrúfa fyrir Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál í átta ár. Það er auðvitað blóðtaka, en við munum geta siglt í gegnum það. (Forseti hringir.) Elsku vinir í stjórnarandstöðu, það sem þið þurfið að gera er einhvern tímann að sjá ljós. Íslenska þjóðin hefur margvísleg tækifæri. (Gripið fram í: Hætta að drekka.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hæstv. ráðherra og hv. þingmenn á að nefna hv. þingmenn fullu nafni.)

Gunnlaugsson.