137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Umræðan um Icesave-samningana hefur tekið á sig ýmsar sérkennilegar myndir að undanförnu. Þegar mál af þessum toga kemur upp er eðlilegt að margvíslegar spurningar vakni, bæði um efnishlið málsins og formhlið þess. Það skiptir miklu máli að þessi umræða sé málefnaleg og hún sé byggð á traustum og réttum upplýsingum en ekki slagorðum og órökstuddum dylgjum.

Því miður hefur á það skort að stjórnvöld hafi gert þjóðinni nægilega vel grein fyrir því hvað í samningnum felst og hvaða leiðir, ef einhverjar, voru færar út úr þeim ógöngum sem Icesave-skuldbindingarnar sannarlega eru. Gagnrýnendur samninganna hafa heldur ekki gert með trúverðugum hætti grein fyrir því hvernig þeir hefðu staðið að málum, hvaða leiðir þeir hefðu valið og hvaða afleiðingar það hefði haft í för með sér.

Þegar horft er til baka er það í raun með hreinum ólíkindum að stjórnendum Landsbankans hafi verið heimilað að stofna til þeirra skuldbindinga sem innlánssöfnunin í gegnum Icesave fól í sér. Það eru ýmsir sem kenna regluverki Evrópusambandsins um en í gegnum EES-samninginn erum við aðilar að evrópsku innlánstryggingarreglunum. Sannarlega má halda því fram að þær reglur hefðu átt að vera þannig úr garði gerðar að þær kæmu í veg fyrir taumlausa skuldsetningu heillar þjóðar. Það breytir þó ekki hinu að íslensk stjórnvöld og eftirlitsaðilar áttu að bregðast við þegar allar viðvörunarbjöllur gullu og stöðva ósómann hjá stjórnendum Landsbankans.

Í lok september skrifaði Fjármálaeftirlitið íslenska hollenskum stjórnvöldum og fullvissaði þau um sterka stöðu Landsbankans. Hvernig mátti það vera? Breskum og hollenskum almenningi verður að sjálfsögðu ekki kennt um hrun íslenska bankakerfisins og syndir stjórnvalda og eftirlitsaðila hér á landi. Hversu sárt sem okkur kann að þykja það lendir sú ábyrgð á íslenskum herðum.

Það breytir ekki því að við Íslendingar hljótum að gera allt sem við getum til að endurheimta það fé sem sólundað var í boði Landsbankans og draga þá til ábyrgðar sem hana sannarlega bera og það er ekki almenningur, hvorki hér á landi né annars staðar.

Ég vil leggja á það áherslu að ég tel að við vinnslu þessa máls á Alþingi þurfi allar upplýsingar að liggja fyrir, bæði fyrir þing og fyrir þjóð. Þær þingnefndir sem fá þetta mál til umfjöllunar verða líka að vera í aðstöðu til að kalla eftir frekari gögnum og eiga orðastað við þá sem unnið hafa að málinu og leita annarrar sérfræðilegrar ráðgjafar eftir atvikum. (Gripið fram í.)

Hér hefur mikið verið talað um einstök efnisatriði í þessum samningi. Honum var dreift til þingmanna síðdegis í dag. Ég fæ ekki séð annað en að margir af þeim sem hér hafa tekið til máls, sérstaklega úr röðum stjórnarandstöðunnar, hafi mótað sér afstöðu til málsins fyrir fram og taki ekkert tillit til þeirra svara og þeirra röksemda sem hafa komið fram hjá þeim aðilum sem hafa verið að skýra þetta mál af hálfu samninganefndanna. (Gripið fram í.) Ég tel að ef menn beita einhverri sanngirni eigi fyrst og fremst að nota tímann á næstunni til að fara rækilega í saumana á þessu máli öllu, spyrja allra krítísku spurninganna, taka þær umræður á vettvangi þeirra þingnefnda sem málið fá og fá þar svör við þeim spurningum sem þeir vilja bera fram.

Það er eðlilegt að það sé mikil reiði í samfélaginu í dag út af þessu máli. Hún beinist að og er auðvitað vegna bankahrunsins, (Forseti hringir.) efnahagshrunsins sem hér varð í haust. Það er mikilvægt að við tökum á þessu máli af alvöru og umræðan verði ekki (Forseti hringir.) alvörulaus eins og mér hefur því miður fundist einkenna hana um of til þessa. (Gripið fram í.)