137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir rakti hér áðan. Þetta er ósanngjarnt mál. Þetta er erfitt mál og það er meira að segja hægt að segja að þetta sé andstyggilegt mál. Það er hins vegar okkar að leysa úr því og það verðum við að gera eins og best við getum.

Bretar þurfa að inna af hendi 2,4 milljarða punda og Hollendingar 1,7 milljarða evra vegna Icesave, meira en Íslendingar þurfa að bera. (Gripið fram í.) Við vitum það af þeirri reynslu sem við gengum í gegnum í haust og í vetrarbyrjun að við eigum ekki þann kost að bera þetta mál undir neinn alþjóðlegan dómstól. Það er ekki þannig að við eigum dómstólaleið greiða, því miður. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það hefðum við gjarnan viljað en það eigum við ekki vegna þess að viðsemjandinn vill ekki bera málið fyrir dómstóla. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta er hin bitra staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við og jafnvel þótt við gætum lagt málið fyrir dóm er það ekki heldur einhlítt að af því hefðum við ávinning. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti hér í desember er mjög vafasamt að gera því skóna að við höfum endilega hag af því að tefla málinu fyrir dóm og eiga á hættu að tapa því. (Gripið fram í.) Fyrir því færði hann mörg góð rök sem öll eiga jafn vel við í dag.

Það er vegna þessara erfiðu aðstæðna sem við þurfum að taka á þessu máli og ljúka því. Vegna þess að lausn á því er nauðsynleg forsenda þeirrar efnahagslegu endurreisnar sem við verðum að ná. (Gripið fram í.) Íslenska þjóðin á annað betra skilið en að við höldum efnahagslegri óvissu um ófyrirséða framtíð vegna óljóss ávinnings af langvinnum lagaþrætum sem engar sterkar líkur eru á að muni færa okkur betri stöðu en við höfum þó í dag. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Einnig hefur verið leitt í ljós í þessari umræðu af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að þau samningsákvæði, sem mikið hefur verið vísað til á síðustu dögum og verið talin standa fyrir einhvers konar fullveldisafsal eða geti haft í för með sér hættu á afsali auðlinda þjóðarinnar, eru vanabundin samningsákvæði (Gripið fram í.) í lánasamningum sem ríki eru aðilar að.

Allt er málið hins vegar þannig vaxið að það sýnir okkur hvernig við þurfum að læra að vinna í nýju Íslandi. (Gripið fram í.) Ég játa fyrir mitt leyti að ég tel að við sjáum á þróun undanfarinna vikna að við hefðum getað hagað upplýsingagjöf í þessu máli talsvert öðruvísi. Nú er mikilvægt að við nálgumst úrvinnslu þessa máls með þeim hætti að velt verði við hverjum steini og róið fyrir hverja vík til þess að kanna málið til hlítar. (Gripið fram í.) Ég tel mjög mikilvægt að við verjum þeim tíma sem nauðsynlegur er í nefndarvinnu til þess að upplýsa málið til fulls.

Hér hefur verið bent á að kalla þurfi til sérfræðinga til þess að fjalla um lánakjörin, um samningsákvæðin, og það er mikilvægt að það starf fari fram fyrir opnum tjöldum eins og kostur er til þess að eyða óvissu og áhyggjum og greiða úr misskilningi. Ég held því að það sé mikilvægt að við tökum þann tíma sem nauðsynlegur er til að fjalla um málið í nefnd. Það skipta ekki máli dagar til eða frá í því efni. Það er algjört grundvallaratriði að við upplýsum þetta mál eins vel og kostur er. Ég held að flestum áhyggjum varðandi þennan samning verði svarað með vandaðri umfjöllun í nefnd og ég treysti því að sjálfsögðu að þingið standi undir því að tryggja glæsilega og góða þingmeðferð málsins þannig að við getum öll verið viss um að velt hafi verið við hverjum steini og málið upplýst til fulls.