137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð, og breytingu á fleiri lögum.

Með frumvarpi þessu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á ýmsum lögum í þeim tilgangi að færa til kjararáðs ákvörðunarvald um launakjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins. Undir þetta falla m.a. hlutafélögin Nýi Kaupþing banki, Nýi Landsbankinn og Íslandsbanki, opinberu hlutafélögin Flugstoðir, Íslandspóstur, Keflavíkurflugvöllur, Matís, Neyðarlínan, Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitur ríkisins og Ríkisútvarpið, auk Byggðastofnunar og Seðlabanka Íslands. Sjóðirnir Íbúðalánasjóður og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og sameignarfyrirtækið Landsvirkjun munu sömuleiðis falla hér undir. Þetta frumvarp tekur einnig til félaga sem eru í meirihlutaeigu nefndra félaga. Hafa verður þó þann fyrirvara á að ekki gert ráð fyrir að þetta eigi við um félög sem eru í eigu félaga sem aftur eru að meiri hluta í eigu félags sem er að meiri hluta í eigu ríkisins. Sem dæmi má nefna ef að sameignarfélagið Landsvirkjun á hlutafélagið Landsvirkjun Invest hf. þá mundi hlutafélag sem væri að meiri hluta í eigu Landsvirkjunar Invest hf. ekki falla hér undir.

Þessu frumvarpi er að sjálfsögðu ekki heldur ætlað að taka til félaga, rekstrarfélaga eða almennra hlutafélaga sem tímabundið gætu lent í óbeinni eigu ríkisins í gegnum banka í eigu ríkisins o.s.frv. Þessi landamæri þarf ef til vill að draga upp með skýrari hætti en gert er í frumvarpinu sjálfu og ég beini því til hv. þingnefndar að huga m.a. að þessu máli í meðförum málsins.

Ákvarðanir um launa- og starfskjör forstöðumanna Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins, sem eru A-hluta stofnanir, verða sömuleiðis færðar undir kjararáð. Jafnframt er tekið fram að í ákvörðunum sínum skuli kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu þeirra aðila sem undir kjararáð heyra annarra en forseta Íslands verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra fyrir dagvinnu. Þetta á jafnt við um þá aðila sem færast undir ráðið nú og þá aðila sem kjararáð hefur úrskurðað um launa- og starfskjör til þessa.

Í öðru lagi er kveðið á um það í 2. gr. að frumvarpið taki ekki til forseta Íslands. Helgast það að sjálfsögðu af ákvæði 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta á kjörtímabili hans.

Í þriðja lagi eru í 3.–14. gr. lagðar til nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum til að færa ákvörðun um starfskjör forstöðumanna stofnana ríkisins þar sem stjórnir ákveða starfskjör þeirra og forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins til kjararáðs og forstöðumanna í eigu þeirra.

Meginverkefni efnahagsmála næstu missirin er að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, endurreisa fjármálakerfið, ná þjóðarsátt um lykilmarkmið og viðamiklar efnahagsráðstafanir eftir hrun fjármálakerfisins í haust. Eitt af mikilvægustu verkefnum í efnahagsmálum næstu missirin er því á sviði ríkisfjármála. Lykillinn að endurreisn íslensks efnahagslífs felst í víðtækum aðgerðum á sviði ríkisfjármála með það að markmiði að mæta hinu mikla tekjufalli sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeim miklu skuldum sem það skilur eftir sig. Meginmarkmið þessa frumvarps er að laga rekstur ríkisins að þessu leyti að gjörbreyttum efnahagslegum raunveruleika og til þess að mæta stórfelldum tekjusamdrætti vegna efnahagskreppunnar.

Það má því segja að frumvarp þetta sé liður í mun víðtækari aðgerðum, sem sumar hverjar munu verða til umfjöllunar á Alþingi á næstu dögum, til þess að jafna kjörin og setja þau inn í núverandi samhengi efnahagsumhverfisins á Íslandi og í sanngirnisátt frá því sem var á tíma ofurlauna sem vissulega leiddu inn í launaákvarðanir innan hins opinbera, sérstaklega í tilviki þeirra sem sömdu sjálfir um sín laun við stjórnir sjálfstæðra eininga innan ríkisrekstrarins.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál að öðru leyti, það er tiltölulega einfalt að formi og gerð og markmiðið með því sömuleiðis. Ég legg því til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.