137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sérstakt fagnaðarefni að þetta mál skuli vera komið til hér umræðu. Það er rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði að það lætur ekki mikið yfir sér en þetta er afskaplega mikilvægt mál og mikilvægur þáttur í þeirri heildarmynd sem þarf að draga upp á næstu vikum, mánuðum og missirum um nýjan sáttmála, nýja þjóðarsátt um launamyndun og launakerfi í landinu.

Við horfumst nú í augu við erfiðar aðgerðir og erfiða stöðu í þjóðarbúinu og munum þurfa að grípa til erfiðra aðgerða sem reyna munu á heimili og það verður ekki einfalt fyrir okkur að takast á við þennan vanda.

Við leggjum líka í dag fram á Alþingi frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem rætt verður á morgun þar sem m.a. er að finna tillögu um sérstakt hátekjuskattþrep á tekjur yfir 700 þús. kr. En þar er líka að finna ákvæði sem fela í sér kjaraskerðingu fyrir lífeyrisþega jafnt ellilífeyris- sem örorkulífeyrisþega. Við þær aðgerðir höfum við reynt að verja sem kostur er hag þeirra sem lakast standa en það er samt sem áður afar erfitt að horfast í augu við það að þurfa að grípa til aðgerða sem bitna á þeim sem ekki hafa valið sér hlutskipti sitt og eiga ekki í annað hús að venda um tekjumöguleika við þessar aðstæður, en við verðum að axla ábyrgðina af því.

Þess vegna er þetta frumvarp svo mikilvægt því það fyllir inn í þá heildarmynd sem nauðsynleg er til að skapast geti samfélagslegt sátt um þær erfiðu aðgerðir sem fram undan eru, erfiðar aðgerðir sem fela að sjálfsögðu í sér hátekjuskatt á hæstu tekjur og auðvitað hækkandi skattbyrðar fyrir þorra fólks og kjaraskerðingu fyrir þá lakast settu í formi skerðinga á bótum.

Við þær aðstæður er mjög mikilvægt að taka skýrt og hart á þeirri öfugþróun í launamálum sem einkennt hefur útþenslu hjá hinu opinbera á undanförnum árum þar sem tilteknir toppar í sjálfstæðum félögum hafa í reynd sagt sig úr lögum við samfélagið hvað varðar launakjör og umgjörð um starfskjör. Það er mikilvægt að snúa þessari öfugþróun við og það er mikilvægt að stemma þessa á að ósi. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að sparnaður ríkissjóðs af þessari aðgerð verði í kringum 38 millj. kr. Sjálfur ég sannfærður um að hann verður meiri vegna þess að aðgerðin mun að sjálfsögðu hafa áhrif áfram niður launastrúktúrinn í kerfinu og mun koma böndum á millistjórnendalaun jafnt í bönkunum sem í þeim stofnunum sem hér um ræðir.

Það eru einfaldlega þeir tímar að við verðum að ætlast til þess að þeir sem betur eru í stakk búnir til að bera byrðar geri það og við verðum að grípa til afgerandi aðgerða til að koma þeim skilaboðum á framfæri. Þeir tímar eru liðnir að sjálftökulið geti valsað um opinbera sjóði og þeir tímar eru liðnir að hægt sé að sætta sig við margfaldan launamun. Nú er einfaldlega runninn upp sá dagur að við þurfum að taka með afgerandi hætti á því rofi sem orðið hefur á milli hópa í samfélaginu og koma eðlilegum viðmiðum á í ákvörðunum um laun hjá æðstu stjórnendum í stofnunum sem í eðli sínu eru þjónustustofnanir við almenning í landinu og áttu aldrei að fá að komast úr samhengi við önnur laun í landinu eða önnur laun hjá hinu opinbera.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar þetta mál en ég vil þó minna á að í 2. gr. frumvarpsins er tekið fram að við ákvörðun sína skuli kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra. Ég tel þetta óþarflega loðið orðalag og sé ekki ástæðu fyrir því af hverju þarna þurfi að höfða til dagvinnu þegar fyrir liggur að forsætisráðherra fær öll sín laun fyrir alla sína vinnu og þar því um heildarlaun að ræða.

Ég vil beina því til nefndarinnar að kanna þetta atriði sérstaklega. Það er a.m.k. vilji minn að við göngum hér enn skýrar fram og það verði þannig að ákvarðanir kjararáðs að þessu leyti lúti að heildarlaunum þeirra forstjóra sem hér um ræðir og að þau verði þá í öllum tilvikum ekki hærri en heildarlaun forsætisráðherra. Það tel ég sanngjarnt, eðlilegt og að öllu leyti skynsamlegt. Við þurfum síðan að gera fleiri breytingar til að festa í sessi önnur viðmið en þau sem gilt hafa í opinberum rekstri hingað til.