137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum. Það er svolítið merkilegt og mikil upplifun að heyra hæstv. félagsmálaráðherra kalla það fólk sem hér um ræðir sjálftökulið í opinberum sjóðum og opinberum störfum, en það er að sjálfsögðu hans skoðun.

Mig langar til að fara aðeins yfir út á hvað þetta gengur. Kjaranefnd og Kjaradómur voru sameinuð og breytt í kjararáð með lögum nr. 47/2006 um kjararáð. Helstu rök fyrir því að kjararáð var stofnað voru þau að tvær stofnanir, kjaranefnd og Kjaradómur, fjölluðu um laun opinberra starfsmanna. Kjaradómur fjallaði um alþingismenn, ráðherra, forseta og hæstaréttardómara en kjaranefnd fjallaði um opinbera starfsmenn í ýmsum stöðum. Ástæðan fyrir því að þessu var breytt og sett undir einn hatt var sú að þarna lægi of mikið undir, þarna væru of margir komnir undir, því að eins og allir vita fjallar kjararáð eingöngu um þá opinberu aðila sem ekki hafa verkfallsrétt.

Í 1. gr. laga um kjararáð segir að verkefni þess sé að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra, dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt. Nú er komið fram frumvarp þar sem þeim fjölgar sem heyra undir kjararáð og hæstv. fjármálaráðherra las hér upp áðan hverjir þeir væru þannig að óþarft er að tíunda það orð fyrir orð, en þarna eru m.a. bankastjórar bankanna og þeirra félaga sem bætast við.

Aðeins til upprifjunar um það hve hættuleg aðgerð þetta er sem verið er að fara hér í þar sem framkvæmdarvaldið er með puttana í úrskurðarnefnd eins og kjararáð er, þá langar mig til að lesa upp úr greinargerð formanns Kjaradóms frá því 17. febrúar 2006 sem fylgdi með sem fylgiskjal með frumvarpi til laga um kjararáð en þar segir, með leyfi forseta:

„Kjaradómur, sem starfar í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma, getur komist að niðurstöðu sem hentar ekki á hinu pólitíska leiksviði þá og þá stundina. Kjaradómur fer ekki eftir fyrir fram gefnum pólitískum línum og menn verða að geta treyst því að hann starfi óháður stjórnvöldum. Með lögum nr. 1/2006 var hins vegar raskað því innbyrðis kerfi sem Kjaradómur hafði komið sér upp í samræmi við fyrirmæli til hans í lögum …“

Þarna bendir formaður Kjaradóms á hve það er í raun og veru hættuleg aðgerð þegar pólitíkin fer að skipta sér af launum þeirra aðila sem þarna um ræðir sem hafa, eins og ég kom inn á áðan, ekki verkfallsrétt. Það hefur gerst tvisvar eða þrisvar síðustu ár sem ég man eftir að löggjafinn gekk fram í því að fá því hnekkt þegar Kjaradómur og kjararáð höfðu ákvarðað laun þessara aðila sem byggðust fyrst og fremst á þróun á launamarkaði og tóku tillit til þess hver þróunin var. Þá sá löggjafinn sig knúinn til að hnekkja þeirri niðurstöðu þvert á lög því að þessir aðilar áttu að starfa algjörlega sjálfstætt án þess að pólitískir puttar kæmu þar nærri.

Hins vegar þegar kjararáð var stofnað upp úr kjaranefnd og Kjaradómi var samsetningin á kjararáði sú að þrír aðilar eru skipaðir af Alþingi og tveir koma annars staðar frá. En áður en lögunum var breytt voru þessar stofnanir algjörlega sjálfstæðar og hvorki framkvæmdarvaldið né löggjafarvaldið hafði aðkomu þar að. Með því að skipa lögum um kjararáð með þessum hætti var jafnframt gefið í skyn að löggjafinn hefði þarna ákveðið hlutverk og það er akkúrat það sem er að gerast núna því að nú er búið að leggja fram frumvarp þar sem lagt er til að fjölga þeim sem heyra undir kjararáð og löggjafinn hefur í raun og veru aðgang þarna inn.

Að mínu mati er sparnaðurinn sem fólginn er í þessum launalækkunum afar lítill. Við þingmenn, minni hlutinn og örugglega meiri hlutinn líka erum í raun og veru að bíða eftir því hvaða aðgerðir ríkisstjórnin ætlar að fara í til að sýna fram á einhvern niðurskurð. Ég bendi á að þegar lög beinast að einstökum aðilum eins og í þessu frumvarpi, það á að spara hér 12 millj. kr. á þremur einstaklingum, 38 millj. kr. sparnaður bitnar á níu aðilum, þá langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort það sé ekki örugglega vanhugsað að fara fram með málið á þessum grunni. Fallið hafa hæstaréttardómar þar sem hægt er að rekja lög til einstakra aðila, þar sem einstakir aðilar eru teknir út úr einhverju heildarmengi, þeir hafa fallið á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar um að verið sé að taka einstakling eða fyrirtæki út úr heilu mengi og það hefur bakað íslenska ríkinu bótaskyldu, hæstv. forseti.

Ég hef áhyggjur af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem laun eru varin með, laun og lífeyrissjóðsgreiðslur eru varin með eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það hefur ekki reynt á það en ég veit að héraðsdómari ætlaði á sínum tíma að láta reyna á það, að einhliða lækkun löggjafans á launahækkun Kjaradóms varð til þess að héraðsdómari ætlaði jafnvel að fara í málssókn á þessu ákvæði en varð ekki úr, hefur kannski brostið kjark vegna ástæðna í þjóðfélaginu þá og ef til vill leita þeir aðilar sem um ræðir í þessu frumvarpi ekki réttar síns vegna aðstæðna í samfélaginu sem leiðir þá til þess, eins og ég hef bent á áður, að réttarríki okkar er í gríðarlegri hættu á þeim tímum sem við lifum núna, því að í raun og veru er verið að fara út á ystu nöf með ýmis mál varðandi réttinn sem varinn er í stjórnarskránni og annað.

Að lokum langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort segja eigi upp þeim aðilum sem hér falla undir og frumvarpið nær til og endurráða þá. Er búið að gera eitthvert samkomulag við þá um að þeir taki á sig launaskerðingu? Er búið að ganga frá því að þeir fari ekki í málssókn við íslenska ríkið verði frumvarpið að lögum og skaðabótakröfur? Hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að leysa vandamálið varðandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og rétt þessara aðila til að lækka þessi laun?