137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi sparnaðinn er það alveg rétt að hann er ekki mjög mikill reikningslega séð ef aðeins eru teknir þeir aðilar sem hér færast beint undir kjararáð. Þó er skotið á að laun eða launakostnaður mundi lækka strax um u.þ.b. 50 millj. kr. sem laun eða launakostnaður af þeim sökum. Þá er rétt að hafa í huga að enginn afleiddur sparnaður er reiknaður inn í dæmið og ekki er heldur tekið tillit til þess sparnaðar sem væntanlega verður þegar allmikill fjöldi dótturfélaga sem hér munu eiga í hlut sætir sömu meðferð.

Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að löggjafinn getur ákveðið þessa breytingu á fyrirkomulagi launaákvarðana starfsmanna sinna. Kjararáði hafa áður verið falin verkefni sem eru á grundvelli tiltekinna markmiða sem löggjafinn vill ná fram í sambandi við launakjör eins og gert var í vetur þegar kjararáði var falið beint að lækka laun þeirra sem það hafði áður úrskurðað um. Kjararáð hefur nú lokið því verkefni, því voru falin ákveðin viðmiðunarmörk í þeim efnum og hefur það leyst það vel af hendi. Síðasti hópurinn sem þar á í hlut er núna að fá nýjan úrskurð.

Ég held að það skapi heldur enga réttaróvissu þegar kjararáð kemst að sinni niðurstöðu. Þá gera viðkomandi forstöðumenn það einfaldlega upp við sig hvort þeir vilji vinna áfram á þeim launakjörum sem þannig hafa verið ákvörðuð af hálfu vinnuveitandans eða hvort þeir kjósa ef svo bæri undir að segja frekar starfi sínu lausu. Þannig geng ég út frá því að þetta gerist og ég held að það skapi alls enga óvissu í þessum efnum. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að menn eigi stjórnarskrárvarinn rétt á því að halda einhverjum tilteknum launakjörum gagnvart vinnuveitanda sínum og allra síst þeir sem ekki falla undir (Forseti hringir.) almenna kjarasamninga og hverra launaákvarðanir hafa verið ákvarðaðar með sérstökum hætti áður.