137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er nákvæmlega það fólk sem hefur launaréttinn varinn með stjórnarskrárbundnu ákvæði sem ekki getur farið í verkfall og barist fyrir rétti sínum á þeim grunni þannig að ég tel að hæstv. fjármálaráðherra misskilji málið. Þó að kjararáð hafi úrskurðað um lækkun launa á sl. vetri og hefur gert það áður að tilmælum Alþingis er ekki þar með sagt að það þurfi að vera svo um ókomna tíð því að í lögum um kjararáð segir að það skuli vera sjálfstætt.

Komum við þá aftur að því sem við höfum svo oft orðið vör við á þessu vorþingi að ríkisstjórnin, sú sem nú situr, lítur svo á að hafi einhver ákveðin framkvæmd verið eins um ómunatíð, hefur jafnvel ekki verið í takt við það sem gerist og gengur, eigi hún að vera þannig áfram. Erum við ekki að tala um það á þessu sumarþingi eftir nýafstaðnar kosningar að hér eigi að ríkja gegnsæi og heiðarleiki (Gripið fram í.) og láta af þeim vinnubrögðum sem stjórnarandstaðan og þá sérstaklega flokkur hæstv. fjármálaráðherra, þá í mikilli stjórnarandstöðu, hefur gagnrýnt svo mikið? Því ekki að taka upp ný vinnubrögð þegar tækifæri gefst til þess?

Því segi ég að þó að þessi aðgerð hafi verið gerð í vetur er ekki þar með sagt að allir falli undir það. Það myndast ákveðinn móralskur stuðningur fyrir því að lækka laun. Auðvitað lækkar almenni vinnumarkaðurinn líka laun og fólk missir vinnuna o.s.frv. En ég bendi á aðalatriðið að mínu mati í því frumvarpi sem liggur fyrir, þ.e. hinn stjórnarskrárvarða eignarrétt hvað varðar laun og launatengd gjöld sem þessi hópur hefur svo sannarlega unnið sér inn.