137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti svo sem ekki von á miklu úr þessari átt. Ég var að gagnrýna að það væri kynnt sem meiri háttar efnahagsaðgerð að spara ætti 12 milljónir í A-hluta ríkissjóðs, 38 milljónir í B-hluta ríkissjóðs. Hv. þingmaður ber það saman við þær aðgerðir sem verið er að framfylgja af festu og raunhæfni bæði í Reykjavíkurborg og á Akureyri og eru til umræðu á fleiri stöðum þar sem verið er að lækka laun yfir línuna. Hann ruglar síðan saman samningsbundnum launum annars vegar, sem við erum að ræða hér, og ósamningsbundnum launum hins vegar.

Það er eins og ég segi, ég átti svo sem ekki von á miklu úr þessari átt sem sýnir raunverulega hvað málefnin eru lítil, að við skulum vera að eyða tíma Alþingis í að ræða einhvern sparnað sem á heildina litið, á ársgrundvelli, er 50 milljónir meðan heimilunum blæðir og fyrirtækin brenna — þetta er bara ómerkilegur popúlismi og lýðskrum, hæstv. tryggingamálaráðherra.