137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu málsins og hv. þingmönnum fyrir ýmsar ábendingar og ágæt innlegg. Mér koma þó nokkuð á óvart þau innlegg sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt inn í umræðuna vegna þess að ég átti einmitt orðastað við fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, um þessi sömu efni í kjölfar hrunsins í nóvemberbyrjun, hvort ekki væri eðlilegt að líta svo á í ríkiskerfinu að forsætisráðherra ætti að vera sá sem hæst laun bæri úr býtum. Að við hefðum misst stjórn á launaþróun hjá hinu opinbera á undanförnum árum og misst marga forstöðumenn upp fyrir almenna launaþróun og þess vegna væri ástæða til þess að vinda ofan af því. Ég fékk við því góðar undirtektir hjá hæstv. fjármálaráðherra og hygg að ýmsir fleiri úr þeim röðum hafi tekið undir svipuð sjónarmið í vetur án þess að nokkur hafi til þessa kallað þá lýðskrumara eða eitthvað þaðan af verra fyrir að hafa þá skoðun. Ég held að það sé ósköp málefnalegt sjónarmið að forsætisráðherra eigi að vera hæst launaður í launaskipulagi ríkisins. Svo geta menn deilt um það hversu hátt launaður forsætisráðherra á að vera, það er önnur saga.

Menn verða auðvitað að hafa í huga að eitt af því sem gerðist í aðdraganda hrunsins var að hér varð ákveðið hömluleysi, ákveðið óhóf, og menn misstu tökin á ýmsu. Eitt af því var launaþróun yfirmanna, ekki bara hjá ríkinu heldur auðvitað líka og ekki síst í einkageiranum. Það er verkefni okkar að vinda ofan af því. Ég bið menn nú að tala varlega um atgervi í þessu efni vegna þess að ég vísa því á bug að það sé einhver algildur mælikvarði á milli atgervis og launa. Ég held að það sé líka eitt af því sem undanfarin ár hafa kennt okkur og ættu að hafa kennt ýmsum þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu að sumir þeir sem hér á síðustu árum voru rómaðir mjög fyrir atgervi og áttu fyrir það að njóta gríðarlegra launa og hlunninda og starfslokasamninga reyndust þegar bækurnar voru skoðaðar betur, ekki hafa verið þeir miklu atgervismenn sem öll orðræðan stóð um. Nei, ég held að oft sé að finna mikið atgervisfólk á lágum launum og stundum líka fólk á háum launum sem er lítið eða ekkert atgervisfólk. Ég held að við eigum að fara okkur varlega í því að blanda þessu saman.

Auðvitað er mikilvægt að launa fólki fyrir ábyrgð, menntun og fyrir að taka á í störfum sínum. Það er sannarlega málefnalegt, eins og hér hefur komið fram við umræðuna að hafa áhyggjur af spekileka milli opinbera kerfisins og einkamarkaðarins eða af því að fólk leiti héðan úr landinu. Ég er hins vegar dálítið hugsi yfir orðræðu okkar og í raun og veru afstöðu vegna þess að við eigum því miður fram undan gríðarlega erfiða mánuði og ár. Við þurfum að vinna okkur út úr stærsta áfallinu frá því í kreppunni miklu. Við þurfum að brúa bilið í ríkisrekstrinum, 170 milljarða gat eða sem nemur hátt í tveimur millj. kr. á hvert heimili í landinu á ári. Við þurfum að vinna upp mikinn og tilfinnanlegan samdrátt í landsframleiðslu um leið og við þurfum að standa undir miklum fjármagnskostnaði af erlendum skuldum okkar.

Við þessar aðstæður er ákaflega mikilvægt að við séum okkur öll mjög vel meðvituð um að í þeim leiðangri munu allir þurfa að leggja af mörkum, kjör allra munu meira og minna lækka og auðvitað erum við öll sammála um það að þar þurfa þeir sem mest hafa að leggja mest til. Við getum ekki farið í gegnum þessar aðgerðir, sem sumar verða stórar en aðrar smáar, eins og þessi er í sjálfu sér í upphæðum talið, og rætt málið út frá þeim forsendum að allir eigi að halda sínu, það væri best. Ef við tökum þá afstöðu og höfum orðræðu okkar þannig að verja eigi hagsmuni allra og að gæta eigi að stöðu og sjónarmiðum allra þannig að þeir séu óskertir eftir það sem á undan er gengið munum við ekki ná árangri. Þetta vitum við öll og ég veit að það eru allir meðvitaðir um það. Ef við ekki nálgumst verkefnið og lausn þess með þessum hætti og ef við missum samfélagið í það að hér standi bara allir vörð um hagsmuni sína, munu lífskjörin náttúrlega verða brennd með öðrum hætti eins og við höfum svo langa sögu af. Það mun verða miklu verri úrlausn en hér er lögð til fyrir alla hópa, líka fyrir þá sem við fjöllum hér um.

Ég held ekki að það sé af neinni öfund sem þetta mál er lagt fram. Ég held að það séu ósköp einfaldlega eðlileg málefnaleg sjónarmið að forsætisráðherra eigi að vera hæstlaunaði forstöðumaðurinn í stjórnkerfi ríkisins.