137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem ég tók þátt í þessari umræðu vil ég árétta það að ég talaði ekki fyrir því að laun þyrftu að hækka hjá hinu opinbera eins og sakir standa í dag. Ég geri mér alveg grein fyrir því að erfiðra ákvarðana er þörf. En ég vil spyrja hv. þingmann, sem talaði réttilega um að hið opinbera á sannarlega ekki of mikið af fjármunum: Hvað finnst henni um það að ríkisstjórnin skuli hafa fjölgað ráðherrum úr tíu í tólf í kjölfar síðustu alþingiskosninga? Væri ekki rétt að sameina nokkur ráðuneyti með hraði og fækka þar af leiðandi ráðherrastólunum úr tólf í tíu?

Svo vil ég minna hv. þingmann á, um leið og ég árétta þessa spurningu mína og ég þykist vita að hún gerir sér grein fyrir því, að við erum að missa úr landi núna þessa mánuði venjulegt fólk, fjölskyldufólk, fólk af minni kynslóð, því miður, og ég þekki sjálfur þess dæmi, en við erum líka að missa mjög hæfileikaríkt fólk, langskólagengið fólk. Ef við keyrum alla launastefnu niður úr öllu þá finnst mér það alveg réttmæt ábending að við gætum horfst í augu við það að missa kannski fleira fólk úr landi en við höfum efni á. Ég bið hv. þingmann um að segja álit sitt á þessu. Hann er vandrataður meðalvegurinn, ég geri mér grein fyrir því, en ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að taka til og sýna aðhald hjá hinu opinbera. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki rétt að samflokksbræður hennar og -systur ásamt Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem sitja í ríkisstjórn Íslands byrji á niðurskurðinum þar áður en menn halda lengra niður eftir ríkisstiganum í því kerfi sem við ætlum að reyna að hagræða í.