137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hins vegar fannst mér þau ekki nægilega skýr að því leyti að hæstv. ráðherra sagði að ráðuneytum yrði væntanlega fækkað um tvö á kjörtímabilinu og það eru næstum fjögur ár eftir af þessu kjörtímabili. Í ljósi þess tók það ríkisstjórnina ekki nema einungis nokkrar vikur að setja á fót, sem verður gert í haust, sérstakt viðskipta- og efnahagsráðuneyti sem á að samþætta ýmsa þætti innan viðskiptaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins. Mjög flókin framkvæmd, trúlega miklu flóknari framkvæmd en til að mynda gera eitt atvinnuvegaráðuneyti eða að sameina dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti.

Ég spyr: Hvar er viljinn til þess að sameina þessi ráðuneyti og ráðast í einhverjar raunverulegar hagræðingaraðgerðir? Miðað við þann tíma sem það tók hæstv. ríkisstjórn að búa til nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti ætti það einungis að vera nokkurra vikna verk að sameina þessi ráðuneyti og ná þar af leiðandi tugmilljóna króna sparnaði í rekstri hins opinbera og veitir svo sannarlega ekki af því.

Ég inni hæstv. ráðherra aftur eftir því hvar viljinn sé til að spara á þessum sviðum. Er það virkilega svo að stólarnir eru mikilvægari fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og Samfylkinguna en það að spara í ríkisrekstri? Ég er alveg sannfærður um það, þ.e. ef viljinn er fyrir hendi, að það er hægur vandi að sameina þessi ráðuneyti og við þurfum ekki hátt í fjögur ár til þess. Ég óska eftir einhverjum tímasetningum á því frá hæstv. ráðherra. Svo væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra tjá sig um hugmyndir hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um að hafa ráðuneytin bara sjö.