137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar um mál nr. 1 á þskj. 1, en álitið er að finna á þskj. 145. Að því standa allir þingmenn nefndarinnar utan einn, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem gerir grein fyrir sínu áliti, áliti minni hluta á þskj. 148, á eftir.

Það er skemmst frá því að segja að það mál sem hér er til umfjöllunar hefur nú verið flutt á tveimur þingum, fyrst fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar og síðan endurflutt að þeim loknum á þessu þingi. Er óhætt að segja að það hafi á tímabili a.m.k. verið nokkuð umdeilt og kannski einkum vegna þess að menn höfðu ýmsar áhyggjur af hvaða fyrirætlanir kynnu að liggja hér að baki og ýmisleg tortryggni sem málið vakti og kannski hve skammur aðdragandinn var. Málið átti rót sína að rekja í tillögum sérfræðinga í því að fást við fjármála- og bankakreppur sem hingað voru fengnir, undir forustu Mats Josefssons, og skiluðu okkur skýrslu um tillögur sínar. Ríkisstjórnin vann síðan upp mál sem var flutt fyrir þingkosningarnar en náði þá ekki fram að ganga þar sem ekki náðist samstaða um málið í þáverandi hv. efnahags- og skattanefnd og kom aldrei til 2. umr. Það var síðan endurflutt talsvert breytt á yfirstandandi þingi og ég held að óhætt sé að segja að ýmis ákvæði hafi verið langtum sterkari í fyrri útgáfu þess og það hafi verið mjög dregið úr öllum tækjum og tólum í málinu eins og það var endurflutt núna til að koma til móts við gagnrýni.

Við umfjöllun í efnahags- og skattanefnd kom fram nokkuð eindreginn vilji nefndarmanna til að skapa þessu fyrirtæki þá aðstöðu sem nauðsynleg væri í þeim gríðarlega brýnu verkefnum sem það þarf að koma að sem er fjárhagsleg endurskipulagning atvinnufyrirtækja. Það er auðvitað eitt af þeim lykilverkefnum sem við verðum að fást við næstu mánuði og missiri til að ná hjólum efnahagslífsins aftur í gang, því að eins og fram kom hjá hv. fyrrverandi formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétri H. Blöndal, í umræðu um málið á undan þá er það auðvitað það sem mestu máli skiptir að við vinnum okkur út úr þeim vanda. Það er hvorki niðurskurður né skattar heldur þvert á móti verðmætasköpunin sjálf, að við tryggjum það að tjónið í atvinnulífinu verði eins lítið og mögulegt er úr því sem komið er og að fyrirtækin komist á skrið aftur og þar er auðvitað fjárhagsleg endurskipulagning þeirra lykilatriði.

Nefndin fékk m.a. á sinn fund nefndan Mats Josefsson, sem hefur mikla reynslu af því að eiga við sambærilegar aðstæður frá fjármálakreppunni í Svíþjóð, og hlýddi á þær athugasemdir sem hann hafði fram að færa við málið. Ég held að þær breytingartillögur sem hér eru fluttar, raunar er málið flutt sem breytingartillaga nokkuð breytt, miði mjög að því að flytja málið aftur til fyrra horfs og þeirra tillagna sem komu upphaflega frá hinum erlendu sérfræðingum, þó með þeirri veigamiklu breytingu að hér er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að þetta fyrirtæki aðstoði með ráðgjöf bankana við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja en að fyrirtækin sem í hlut eiga verði ekki tekin yfir af þessu nýja félagi, þ.e. að fyrirtækin verði endurskipulögð í bókum bankanna þar sem þau nú eru. Þess vegna verði eðli þessa fyrirtækis ekki það risavaxna eignarhaldsfélag sem sumir sáu fyrir sér með nokkurri skelfingu að ríkið ætlaði að fara að starfrækja, heldur sé eðli þess það að vera ráðgjafarfyrirtæki við hina fjárhagslegu endurskipulagningu. Og í stað þess sem upphaflega var ætlað að fjalla um að það gæti tekið yfir þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, sem var ákaflega umdeild skilgreining í fyrri umfjöllun um málið, kaus nefndin einfaldlega að orða það svo að í undantekningartilfellum geti félagið tekið yfir rekstur. Þar er þá átt við fyrirtæki sem eru svo stór og umfangsmikil og í viðskiptum við fleiri en eina fjármálastofnun að það sé niðurstaða manna að í undantekningartilfellum geti það komið til álita að félagið taki yfir eignarhaldið. Meginreglan sé sú í starfsemi og afskiptum félagsins að það komi til ráðgjafar við þetta mikilvæga verkefni og að þar byggist upp sérfræðiþekking í því að takast á við þessi verkefni. Að þetta geri sem allra best í því að hjálpa bönkunum við að horfa til framtíðarinnar, til morgundagsins, til uppbyggingar verkefnanna, en létti sem mest á þeim í því verki að grafast fyrir í fortíðinni og um þann vanda sem skapaðist í atvinnulífinu í kjölfar hrunsins heldur komi ráðgjöf og sérfræðiþekking þarna inn til að aðstoða við það.

Fjárhagsleg endurskipulagning er líka ákaflega viðkvæm og þar eru margar flóknar spurningar. Almenningi er alls ekki sama hvernig að því er staðið, sérstaklega ekki eftir hrunið þegar svo margar stofnanir í okkar samfélagi, m.a. okkar eigin stofnun, eru algerlega rúnar trausti. Þá eru auðvitað uppi áhyggjur og efasemdir um að rétt sé staðið að þeim miklu hagsmunamálum sem verið er að taka ákvarðanir um við fjárhagslega endurskipulagningu í atvinnulífinu. Þess vegna taldi nefndin mikilvægt að styrkja mjög þá þætti málsins sem lúta að því að þetta sé sem opnast ferli og gagnsæjast, að þar sé eftirlit sterkt og þar sé líka um að ræða aðkomu þingsins bæði með eftirliti hv. efnahags- og skattanefndar en líka með því að hæstv. fjármálaráðherra, sem fer með forræði þessara mála, þurfi að gefa þinginu skýrslu um hina fjárhagslegu endurskipulagningu með reglulegu millibili. Með þessum ýmsu úrræðum á að reyna að tryggja eftir fremsta megni að stjórnmálamenn og samfélagið allt, almenningur, hafi sem bestan og gleggstan aðgang að upplýsingum um það með hvaða hætti er staðið að þessum verkefnum. Við höfum því miður þess dæmi í löndum sem farið hafa í gegnum svipaða hluti og við að þar hefur orðið mikið ósætti um það með hvaða hætti staðið var að fjárhagslegri endurskipulagningu, hverjir fengu að eiga, hverjir fengu afskrifað o.s.frv. Þess vegna er afar mikilvægt atriði fyrir okkur til að geta skapað sátt í samfélaginu og endurvakið traust að ferlið sé eins opið og gagnsætt og mögulegt er eðli mála samkvæmt.

Af þeim álitaefnum sem ekki tókst að vinna úr held ég að helst sé að geta um það með hvaða hætti staðið er að stjórnarkjöri. Gert er ráð fyrir því að stjórn félagsins sé kjörin á aðalfundi og að það geri hæstv. fjármálaráðherra. Nefndin ræddi mikið um hvernig mætti tryggja sem best að hér væru hæfustu einstaklingar á faglegum forsendum kjörnir í stjórn. Hún skerpti nokkuð á því orðalagi sem laut að hæfniskröfum til stjórnarmanna og ég held að það sé út af fyrir sig framför. Hins vegar voru uppi nokkuð ólík sjónarmið um það hvaða eiginleikum stjórnarmenn ættu að vera búnir, m.a. allt frá því að mikilvægt væri að meiri hluti stjórnarmanna væru íslenskir menn og yfir í sjónarmið um það að þeir ættu allir að vera erlendir menn og hafa engin óeðlileg tengsl í samfélaginu hér og ýmis önnur sjónarmið. Það var kannski ekki gott að samræma svo ólíka sýn en jafnframt var hitt að við ræddum ýmsar aðferðir við að haga stjórnarkjöri með öðrum hætti, tilnefningarnefndir og ýmsar slíkar útfærslur. Engin þeirra var sannarlega gallalaus og niðurstaðan var sú að hafa þá skipan óbreytta í tillögum okkar hér við 2. umr.

Hv. þm. Þór Saari er í okkar hópi sá sem hefur fyrirvara um þetta og ég hygg að álit minni hlutans, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, byggi m.a. á þessu atriði auk eðlilegra sjónarmiða um að málið, sem hefur tekið miklum breytingum, megi fara aftur til umsagnaraðila og hljóta frekari og vandaðri umfjöllun til að tryggja eðlilega málsmeðferð. Ég hef gert ráð fyrir því að málið komi til umfjöllunar, og við höfum rætt það í nefndinni, milli 2. og 3. umr. enda um gríðarlega mikla hagsmuni og viðamikla að ræða og mikilvægt að við reynum að stuðla að því að það sé bæði sem best vandað en líka að um það megi takast sem mest og breiðust sátt. Við þær aðstæður sem við búum á Íslandi í dag þar sem traust er að verulegu leyti horfið og þar sem áhyggjur einkenna mjög orðræðu manna, er það síst til að létta okkur þann erfiða leiðangur sem við eigum fyrir höndum ef við ölum á sundrungu í okkar hópi. Þess vegna er ánægjulegt þegar tekst að ná með málefnalegri umfjöllun að breikka samstöðu og fækka álitaefnum. Ég vil sérstaklega þakka öllum nefndarmönnum fyrir málefnalega umfjöllun um málið og góðar ábendingar og tillegg í þessari umfjöllun.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Magnús Orri Schram, Þór Saari, með fyrirvara eins og áður var getið um, Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal.