137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Ég mæli fyrir minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja kemur nú fram í annað skipti frá ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á síðasta löggjafarþingi vegna andstöðu flestra umsagnaraðila og stjórnarandstöðu þar sem við fyrstu sýn virtist vera um ríkisvæðingu atvinnulífsins að ræða.

Frumvarpið hefur tekið miklum breytingum frá síðasta löggjafarþingi og horfir sumt þar til framfara. Ágæt samvinna hefur verið um málið innan efnahags- og skattanefndar en í ljósi þess hversu miklar breytingar meiri hlutinn leggur til við frumvarpið má færa fyrir því gild rök að eðlilegt sé að senda málið aftur út til umsagnar. Svo mikilvægt mál sem þetta þarf að fá vandaða efnismeðferð þannig að yfir vafa sé hafið að ekki séu mistök falin í lagasetningunni. Enn eru miklar efasemdir um frumvarpið hjá aðilum sem gegna lykilhlutverki í endurreisn íslensks efnahagslífs í samvinnu við stjórnvöld. Má þar nefna Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og stjórnendur ríkisbankanna þriggja. Eins og áður sagði er þess vegna mikilvægt að á milli 2. og 3. umræðu fjalli nefndin aftur efnislega um málið í samráði við helstu hagsmunaaðila. Það hlýtur að vera keppikefli stjórnvalda á tímum sem þessum að eiga sem víðtækast samráð, m.a. við aðila vinnumarkaðarins, og að sem mest sátt ríki um þær aðgerðir sem frá stjórnvöldum koma.

Á tímum gjaldeyrishafta og þegar ríkið fer með eignarhald fjármálafyrirtækja sem eru með um 90% markaðshlutdeild þarf að tryggja að viðskiptalíf og stjórnmál blandist ekki um of. Sagan kennir Íslendingum að slík tengsl eru vægast sagt varhugaverð. Ekki er svo ýkja langt síðan almenningur fékk húsnæðislán á grundvelli flokksskírteinis og það sama má segja um innflutning á atvinnutækjum. Gjaldeyrishöft voru sett á í kjölfar kreppunnar miklu í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar, það tók þjóðina hálfa öld að vinna sig út úr þeim gjaldeyrishöftum. Þess vegna er nauðsynlegt að Ísland vinni sig sem allra fyrst út úr höftum í ljósi þeirrar reynslu á gjaldeyri og að frjálsræði komist á að nýju í rekstri fjármálastofnana.

Í þessu ljósi er varhugavert að gera ráð fyrir að einungis einn ráðherra skipi stjórn hins nýja eignaumsýslufélags. Ekki eru dregin í efa heilindi þess fjármálaráðherra sem nú starfar en það er ekki við hæfi að Alþingi setji lög á grundvelli persónu fjármálaráðherrans. Að ráðherrann einn komi að skipun á stjórn félagsins, sem er falið mjög vítt valdsvið samkvæmt frumvarpinu, felur í sér hættu á því að pólitískir samherjar verði skipaðir í stjórn félagsins. Alþingi Íslendinga á ekki að samþykkja löggjöf sem felur þessa hættu í sér. Þess vegna er mikilvægt að fleiri en einn aðili komi að skipan stjórnar félagsins og því leggur minni hlutinn til að að minnsta kosti þrír af fimm stjórnarmönnum hafi íslenskan ríkisborgararétt, sem ég mun kom nánar að á eftir, auk þess sem sérstök hæfnisnefnd mun fara yfir þá aðila sem eiga að sitja í stjórn félagsins.

Mikilvægt er og það verður seint ofmælt að við endurskipulagningu fyrirtækja sé faglegra vinnubragða gætt í hvívetna til að draga megi úr óhjákvæmilegri gagnrýni sem upp hlýtur að koma frá samkeppnisaðilum á markaði og starfsmönnum fyrirtækjanna sjálfra. Að sama skapi tekur minni hlutinn undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að reglur um sölu á eignarhlutum ríkisins í hlutafélögum verði lögfestar fremur en að byggja skuli í því efni á reglugerð. Skýrt þarf að liggja fyrir hvernig félagið mun standa að sölu eignarhluta í atvinnufyrirtækjum.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum á undanförnum mánuðum. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki gert þær tillögur að sínum og í raun má segja að þörfin á róttækum aðgerðum í efnahagsmálum hafi aldrei verið eins knýjandi og í dag. Tækifæri Íslands til að sigla út úr ólgusjó kreppunnar eru einnig mikil en núverandi stjórn hefur hins vegar ekki séð til lands í þeim efnum, því miður. Verði ráðist í tillögur Framsóknarflokksins má færa fyrir því gild rök að Íslendingar verði fyrstir þjóða komnir í uppbyggingarstarf á ný. Reyndar hangir fleira á spýtunni en aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja. Ógnvænlegt er ef Alþingi Íslendinga ætlar að staðfesta Icesave-ríkisábyrgðina án þess að hafa kynnt sér til hlítar hvað slíkt þýðir fyrir íslenskt samfélag til lengri tíma litið.

Frekari skuldsetningu ríkisins þarf því hindra með öllum tiltækum ráðum. Eins og fram kemur í umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp þetta segir í skýrslu OECD frá árinu 2005 að félög af þeim toga sem kveðið er á um í frumvarpi þessu hafi leitt til óhóflegrar skuldsetningar og séu hvorki skilvirk þegar kemur að endurskipulagningu rekstrar né fjármálastjórn. Að mati minni hlutans þarf því að koma í veg fyrir að eignaumsýslufélagið verði áhættusamur þáttur í hinni erfiðu fjárhagslegu stöðu sem vinna þarf úr á næstu árum.

Við þær aðstæður sem nú eru í íslensku efnahagslífi þar sem undantekningartilfelli geta orðið að venjum er mikilvægt að vandað sé til verka. Kallað er á nýjar og auknar kröfur á hendur stjórnendum opinberra fyrirtækja. Því væri rétt að mati minni hlutans, eins og áður sagði, að koma á fót sérstakri tilnefningarnefnd sem hefði það hlutverk að finna tilvonandi stjórnarmenn og meta hæfi þeirra. Niðurstöður nefndarinnar yrðu að því búnu lagðar fyrir ráðherra. Í tilnefningarnefnd ættu sæti fulltrúi ráðherra og fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, eftirlitsstofnunum og háskólasamfélaginu.

Þá telur minni hlutinn að brýnt sé að ríkið setji sér skýra eigendastefnu gagnvart eignaumsýslufélaginu. Eftirfarandi málaflokkar þurfa að vera skýrt afmarkaðir: markmið eignarhaldsins, skuldbindingar ríkisins í dag og í framtíðinni, rammi um starfsemina sem slíka, hverjar séu helstu skyldur og hlutverk stjórnarinnar, hvernig upplýsingaflæðinu eigi að vera háttað og í hvaða tilvikum ríkið megi beita eigendarétti sínum umfram aðalfundi.

Í ljósi framangreinds telur minni hlutinn það ekki forsvaranlegt að samþykkja frumvarpið í núverandi horfi. Undir þetta ritar Birkir Jón Jónsson.

Eins og hv. framsögumaður meiri hlutans benti á ræðum við þetta mál hér í annað skipti. Samstarfið innan nefndarinnar hefur verið með ágætum en ég vek athygli á því að við 2. umr. sem er aðalumræða um þetta mál liggur ekki fyrir skýr skilningur helstu hagsmunaaðila, m.a. aðila vinnumarkaðarins, um tilganginn með þessu frumvarpi.

Og upphafið var þannig, sem var hugsanlega misskilið af mörgum, að um mögulega ríkisvæðingu væri að ræða til þess að þetta eignarhaldsfélag ætti að taka yfir hlutafélög sem væru í viðskiptum við bankana og væru orðin skuldug. Við framsóknarmenn lögðumst harðlega gegn því á sínum tíma ásamt helstu hagsmunaaðilum í samfélaginu sem fjölluðu um þetta mál.

Nú er málið komið í annan og nýjan búning og nú á að leysa vanda fyrirtækjanna innan veggja bankanna og horfir það til framfara. Það á sem sagt ekki að rífa þau þaðan út jafnvel í ósætti við stjórnendur og eigendur þeirra heldur á að vinna að lausnum vandans innan bankanna. Þetta félag á, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi hér, fyrst og fremst að einbeita sér að ráðgjöf, að það verði sanngjörn og réttlát meðferð gagnvart skuldugum fyrirtækjum þannig að ekki vakni tortryggni í samfélaginu.

En það er ákvæðið sem fjallar um undantekningartilvikin sem ég hef áhyggjur af, að stjórn félagsins eða félagið megi taka yfir skuldsett fyrirtæki í undantekningartilvikum. Það er mjög rík valdheimild sem þessi stjórn hefur því að við lifum vissulega á undantekningartímum. Áhyggjur mínar snúa að því að stjórn þessa félags geti rökstutt jafnvel með óyggjandi hætti að við lifum á undantekningartímum og hér sé þess vegna um undantekningaraðgerðir að ræða sem hægt væri að réttlæta í ljósi ástandsins.

Og ég hefði í raun og veru ekki miklar áhyggjur af því ef ég hefði vissu fyrir því að stjórn þessa félags væri samkvæmt lagatexta algjörlega fagleg. Það er þess vegna sem ég hef lagt til og mun væntanlega leggja til við 3. umr., vegna þess að ég lít svo á að við eigum eftir að ræða þetta mál mikið á milli 2. og 3. umr., að sérstök tilnefningarnefnd fari yfir og finni hæfa einstaklinga. Í þessari tilnefningarnefnd væri fulltrúi ráðherra, fulltrúi frá háskólasamfélaginu og aðilum vinnumarkaðarins sem færu mjög faglega yfir málið og reyndu að finna hæft fólk til að sitja í stjórn þessa félags.

Ég sé einfaldlega ekki rökin gegn því að það sé slæmt fyrir fjármálaráðherra, sama hver hann verður, að fá slíkar tilnefningar og síðan getur ráðherrann á grundvelli þeirra tilnefninga jafnvel verið ósammála mér. Þá skal ráðherrann líka takast á við þá umræðu að hafa ekki farið að ráðum mjög faglegra aðila varðandi skipan í stjórn á þessu félagi sem mun geta haft veruleg völd í íslensku samfélagi til lengri tíma litið. Ef menn túlka þessi undantekningartilvik í ljósi þess að við lifum í undantekningarástandi þannig að menn taki yfir fyrirtæki í miklum mæli er mikilvægt að þar sé vandað til verka. Og þó að hæstv. fjármálaráðherra sé eflaust ágætur embættismaður og ráðherra finnst mér ekki hægt að við afgreiðum lög frá Alþingi Íslendinga á grundvelli persónu ráðherrans því að það getur einhver allt annar ráðherra verið kominn við völd í næstu viku. Þess vegna verðum við þingmenn að ganga haganlega frá þessu. Ég minni á að þegar við afgreiddum lög um Seðlabanka Íslands lögðum við framsóknarmenn mjög mikla áherslu á að seðlabankastjórinn yrði ráðinn á faglegum forsendum. Sérstök nefnd var látin fara yfir hæfni umsækjenda sem sóttu um starfið og skilaði niðurstöðu í þeim efnum til þess, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti réttilega á, að minnka tortryggnina í samfélaginu og reyna að ná sem víðtækastri sátt um aðgerðir stjórnvalda hverju sinni. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að geta vitnað í það að hún hafi farið eftir ráðleggingum faglegrar nefndar sem lagði til ákveðna hluti. Ef hæstv. ráðherra er ósammála nefndinni varðandi val á mönnum í stjórn þessa félag hlýtur hann að leggja rök gegn valinu á borðið og að sjálfsögðu tökum við efnislega afstöðu til þess.

En eins og frumvarpið lítur út núna finnst mér ótækt að við afgreiðum það að þessu leyti til, að það sé einungis undir einum ráðherra komið hvernig þessi valdamikla stjórn verður skipuð.

Ég mun ekki hætta að vara við því sem við höfum upplifað á undangengnum áratugum sem eru tengsl viðskiptalífs og atvinnulífs og flestir stjórnmálaflokkar eiga sína sögu í því, ég dreg ekki dul á það. Við hljótum öll að stefna að sama marki í þeim efnum að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Þá er það enn og aftur sú hætta sem ég nefndi hér áðan að það sé undir einum ráðherra komið hvernig þessi stjórn verður skipuð. Þá finnst mér að okkur beri skylda til þess að koma í veg fyrir að það verði allt einstaklingar úr sama stjórnmálaflokknum án þess að nokkur annar aðili geti komið þar að varðandi umsögn eins og sú tilnefningarnefnd sem ég legg til í þessu frumvarpi að verði skipuð. Við verðum að gjöra svo vel og ganga hægt um gleðinnar dyr á mjög viðkvæmum tímum þegar ríkið er um og yfir og allt um kring á fjármálamarkaðnum með 90% markaðshlutdeild og eignast vel flest fyrirtæki og atvinnustarfsemi í landinu. Við verðum að slá einhverja varnagla til að viðskiptalífið og pólitíkin fari ekki að tengjast órjúfanlegum böndum á ný. Við þurfum að skera á þessa líflínu ef hún er þá einhver í dag.

Að öðru leyti vonast ég til þess að þau fyrirtæki sem ríkið mun eignast verði seld einhvern tímann og þá með gagnsæjum hætti. Í gegnum árin hafa einstakir ráðherrar haft reglugerðarvald til þess að útfæra söluna, sem sagt að búa til leikreglurnar. Ég tel í ljósi þess hvernig við höfum séð mál þróast í öðrum löndum að mikilvægt sé að Alþingi Íslendinga komi að því hvernig þessar reglur eru settar og að Alþingi lögfesti reglurnar gagnvart söluferlinu þannig að það sé yfir vafa hafið og vonandi þá í breiðri sátt og samstöðu.

Ríkisendurskoðun hefur bent okkur á að heppilegast væri að gera það með þessum hætti og ég nefni það í þessari umræðu vegna þess að við erum að stíga fyrsta skrefið í þessari endurreisn og óhjákvæmilega mun það gerast í einhverjum tilvikum að ríkið mun taka yfir einhvern rekstur, hvort sem það er í þessu félagi eða annars staðar. Mér finnst óraunhæft að halda annað. Þá þurfum við að horfa fram á veginn. Vonandi getum við komið þessum fyrirtækjum sem fyrst út á markaðinn aftur en þá þurfa leikreglurnar að vera alveg skýrar í þeim efnum.

Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir af hverju lagt er til og tilkynnt í breytingartillögu að tveir af fimm stjórnarmönnum í þessu félagi verði með íslenskan ríkisborgararétt. Það er einfaldlega sú sjálfsvirðing sem ég tel að við Íslendingar þurfum að hafa í þeirri endurreisn sem fram undan er. Íslendingar eiga að koma að uppbyggingu þjóðfélagsins að nýju og það segi ég í ljósi þeirrar umræðu og þeirra áherslna að jafnvel eingöngu útlendingar eigi að koma að þessu félagi meira eða minna.

Við höfum séð það undanfarnar vikur og mánuði að við höfum fengið norskan seðlabankastjóra. Við höfum fengið sænskan efnahagsráðgjafa. Við höfum fengið franskan rannsóknarmann, allt mætasta fólk. (Gripið fram í.) Og norskan leiðsöguhund, segir hv. formaður Helgi Hjörvar og ég óska honum til hamingju með það, hann stendur sig vel. Og allt er þetta ágætisfólk. (Gripið fram í.) Já og hundurinn líka. En það sem ég vil leggja áherslu á í þessu endurreisnar- og uppbyggingarstarfi sem fram undan er að við verðum líka að treysta á okkur sjálf að einhverju leyti.

Ég tek fullt mark á því að við þurfum að fá aðstoð og ráðgjöf annars staðar frá og jafnvel aðila inn í þessa stjórn frá útlöndum til þess að tryggja að fólk komi sem víðast að. En ég hef þá trú að það verði samt á endanum fyrst og síðast við Íslendingar sem þurfum að vinna okkur upp úr þessu og þess vegna megum við ekki að öllu leyti leggja traust okkar á ágæta erlenda sérfræðinga.

Ég verð ekki einn af þeim sem munu halda því fram þegar sögubækurnar verða skrifaðar eftir nokkur ár og bankahrunið gert upp að allt fólk sem starfaði í íslenskum bönkum sé slæmt fólk. Þar er fullt af afbragðsfólki sem vann af heilindum. En hins vegar er ljóst að einhverjir aðilar fóru mjög óvarlega, svo vægt sé til orða tekið, og við erum að súpa seyðið af því. En í þessum bönkum og í íslensku samfélagi er fullt af hæfileikaríku fólki sem vill búa hér, sem vill byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar, og þess vegna geld ég varhuga við því ef við ætlum að fara að stofna eignarhaldsfélag sem yrði nær algjörlega stýrt af erlendum aðilum, svo ágætir sem þeir kunna að vera.

Það er í ljósi þess sem ég legg þetta fram til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. Við þurfum að fara enn ítarlegar yfir þetta mál og ég tel að við þurfum að fá umsagnir frá þeim helstu hagsmunaaðilum sem ég nefndi hér áðan varðandi það frumvarp sem er nú reyndar orðið opinbert, frá aðilum vinnumarkaðarins og jafnvel þeim sem starfa í þessum bönkum í dag og fleiri aðilum til þess að koma í veg fyrir að við endurtökum einhverja vitleysu sem hefur því miður verið gerð á undangengnum vikum og mánuðum í lagasetningu. Við eigum að stuðla að vandaðri lagasetningu hér á landi og þetta mál er af þeirri stærðargráðu að við þurfum að vanda vel til verka.

Ég er mjög ánægður með það samstarf sem átt hefur sér stað innan nefndarinnar. En hversu gott sem samstarfið kann að vera í málum sem þessu leiðir það ekki alltaf til þess að menn geti komist að einróma niðurstöðu. Ég á einfaldlega eftir að sjá það þegar við skoðum þessi mál betur af fullri sanngirni að það sé heppilegasta fyrirkomulagið að fjármálaráðherrann einn, hver sem hann er, eigi að skipa fimm manna stjórn yfir þetta valdamikla félag.

Það samræmist einhvern veginn ekki þeirri lýðræðishugsun sem ég hef heyrt svo marga stjórnmálamenn tala fyrir á undangengnum mánuðum, fyrir kosningar og eftir kosningar. Ég spyr enn og aftur sem innlegg í þessa umræðu: Hverju töpum við á því að skipa faglega nefnd sem meira að segja fulltrúi ráðherra mætti eiga sæti í, sem mundi fara og leita, jafnvel auglýsa eftir þeim sem vildu vera í stjórn þessa félags og leggja mat á hæfi viðkomandi einstaklinga og ráðherrann tæki síðan afstöðu út frá því? Ég held að það væri miklu heppilegra, ekki síst fyrir hæstv. ráðherrann sjálfan sem situr undir því ámæli dag eftir dag að betur hefði mátt gera í hinum og þessum málum og það mundi þar af leiðandi veita hans andstæðingum gott vopn sem vilja gera skipan þessarar stjórnar tortryggilega.

Mér finnst samstarfið innan nefndarinnar í raun og veru hafa verið hafið yfir flokkspólitískar línur. Við höfum öll lagt okkar af mörkum í þessu og hv. formaður nefndarinnar hefur tekið tillit til allra sjónarmiða okkar. En mér þykir miður ef þetta sjónarmið, hvernig sem við útfærum það, verður ekki ofan á, að fleiri aðilar komi að skipan í stjórn þessa félags. Ég fer fram á málefnalegu umræðu um það af hverju ráðherrann á einn að koma að þessu og hleypa engum öðrum að. Eins og þessi breytingartillaga hljómar, þ.e. ef hún yrði flutt við 3. umr. um málið og ég legg fram sem hugmynd á milli 2. og 3. umr., er hér einungis um tilnefningar að ræða, hugmyndir til ráðherra sem hann getur svo síðar meir í ferlinu samþykkt eða hafnað. En þá höfum við þó eitthvert faglegt mat í höndunum frá einhverri nefnd sem hefur ráðist í að skoða það faglega hvaða einstaklingar séu heppilegastir í svo viðamikið verk sem það er að stýra þessu fyrirtæki.

Hér er um gjörbreytt mál að ræða en þar sem ekki er ljóst hvernig staðið verður að stjórn þessa félags eða skipan í stjórn en eins og það er núna er það bara fjármálaráðherrann sem verður þar. Ég get því miður ekki sæst á það og minni á að við lifum á undantekningartímum þar sem auðvelt er að færa rök fyrir einhverjum undantekningarákvörðunum fyrir yfirtöku á hinum og þessum fyrirtækjum. Ef það er gert á grundvelli stjórnmálanna af einhverjum pólitískt kjörnum fulltrúum fer það að verða eins og áður fyrr þegar fólk fékk húsnæðislán á grundvelli flokksskírteinis. Ég trúi því ekki að við viljum upplifa slíka tíma aftur og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn muni skipa í þessa stjórn með þessum hætti. Ég ætla ekki að fullyrða það hér.

Eins og ég sagði er hæstv. fjármálaráðherra án efa ágætismaður. En þetta er mál sem við þurfum að ræða mun betur í efnahags- og skattanefnd um leið og ég þakka þetta samstarf og bið hv. nefndarmenn, hina átta sem ekki eru með mér á þessu áliti, að hugleiða hvort við værum í raun og veru ekki að gera hæstv. fjármálaráðherra mestan greiða með því að koma einhverju faglegu ferli af stað í kringum skipan þessarar stjórnar því að þessi stjórn og þetta félag mun hugsanlega þurfa að taka mjög erfiðar og umdeildar ákvarðanir. Ég vona svo sannarlega að það komi ekki í hlut stjórnmálamanna eða aðila sem nátengdir eru stjórnmálaflokkunum að taka slíkar ákvarðanir því að sporin hræða í þeim efnum. Og ég tel að ef vel heppnast í þessu og þetta verður einungis „apparat“ sem mun veita bönkunum ráðgjöf með hóflegum hætti og tryggja að það sé sanngjörn og réttlát meðferð hjá skuldugum fyrirtækjum í þessu landi er þetta mál vissulega af hinu góða. Tilgangurinn núna er allur annar en í því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili. Ég man eftir því að við framsóknarmenn lágum undir miklum ámælum af hálfu ríkisstjórnarinnar þá að hafa ekki hleypt því máli í gegn og vilja ekki styðja það mál. Það mál var margsinnis gagnrýnt en ég held að það séu flestallir sammála því í dag að það var rétt að það mál fór ekki í gegn á sínum tíma og þess vegna þurfum við að hugsa vandlega um hvort við getum ekki náð einhverri sameiginlegri lendingu. Ég vona það og miðað við það samstarf sem verið hefur í þessari nefnd hingað til eigum við eftir að eiga gott samstarf áfram.

En að mínu viti þurfum við að kalla til þessa aðila til þess að fá álit þeirra á þessu frumvarpi sem er enn í meðförum nefndarinnar um leið og ég þakka öllum samnefndarmönnum fyrir gott samstarf. Það mættu fleiri mál vera meðhöndluð með þessum hætti hér á Alþingi Íslendinga innan nefnda og formaðurinn á réttilega hrós skilið fyrir það. Við erum búin að gera málið miklu betra en það var og þar hafa stjórn og stjórnarandstaða lagst á eitt og að sjálfsögðu ættu vinnubrögðin að vera með þeim hætti frekar en að við þurfum að hlusta á ýmsar yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar sem virðist í sumum málum geta gefið út dagskipanir og þá fara málin nær óbreytt í gegn. Við eigum að vinna saman á þinginu og þetta mál, sem er eitt af fyrstu málunum sem efnahags- og skattanefnd tók fyrir, lofar góðu í þeim efnum og ég hlakka til vinnunnar á milli 2. og 3. umr. um þetta mál.