137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:33]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hér um störf nefndarinnar. Sem nýliði á þingi hef ég haft mikla ánægju af því að vinna þetta mál í efnahags- og skattanefnd og hv. formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, hefur höndlað málið með stakri prýði og mikilli yfirvegun og mikilli sanngirni. Ég met það mikils hve ólík sjónarmið hafa fengið mikið vægi og góða umfjöllun og hef haft ánægju af því, eins og ég sagði, að vinna þetta mál með þessum hætti. Ég ber það svolítið saman við önnur störf sem ég verð vitni að á þinginu og þetta hefur verið til mikillar fyrirmyndar.

Málið hefur tekið miklum breytingum. Ráðherra sjálfur hefur samþykkt þær breytingar og það ber líka að virða sanngirni hæstv. ráðherra í málinu. Þetta er mikið mál, þetta gæti orðið stórt og erfitt batterí við að eiga en efnahags- og skattanefnd hefur tæklað það með þeim hætti að það hefur breyst út því sem menn kölluðu sovét ohf. við 1. umr. í kannski eitthvað sem mætti kalla krækiber ehf. í dag. Deilan snýst kannski fyrst og fremst um það í dag hver á að eiga krækiberið og ráða því.

Minnihlutaálit Birkis Jóns Jónssonar er fyllilega réttmætt að því marki að við höfum kannski oft frekar slæma reynslu af því að vera með pólitískt skipaðar stjórnir og ég hef að ýmsu leyti aðhyllst það að skipuð yrði stjórn yfir þessu félagi með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til hér á landi. Við fórum mjög rækilega í gegnum þetta og ræddum málið fram og til baka. Ég taldi og tel að hluta til enn að að þessu þurfi að koma erlendir stjórnendur einfaldlega vegna þess að hér þarf menn með mjög greinargóða og ítarlega þekkingu á þessum málum. Vonandi verður það raunin að hér komi inn einhverjir menn með slíka kunnáttu og reynslu.

Önnur ástæðan fyrir því að ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara er að þetta snýst mjög mikið um trúverðugleika og traust. Trúverðugleiki er tvenns konar, það er trúverðugleiki í reynd og trúverðugleiki í ásýnd. Ég sagði hér um daginn að ég væri feginn því að við hefðum þó alla vega núverandi fjármálaráðherra til að skipa þessa stjórn en ekki einhvern annan sem hefði þá kannski verið forveri hans eða jafnvel einhver enn lengra síðan, því að ég treysti hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni til að fara vel með þetta vald í þessu tilviki. Það verður svo bara að koma í ljós hvort hann stendur undir því trausti.

Trúverðugleiki í ásýnd er aftur annað mál og það er það sem blasir við fólki utan þessa salar og kannski fólki úti í samfélaginu og fólki erlendis líka. Það er sú aðferð að einn ráðherra skipi alla í stjórn svo mikilvægs félags, hver svo sem sá ráðherra er, sú ásýnd er kannski ekki eins skotheld og hún mætti vera. Ég tel því nokkuð víst að skipan stjórnar þessa félags muni sæta gagnrýni nánast sama hverjir verða skipaðir í stjórnina einfaldlega vegna þess að hún verður með þeim hætti að það er ráðherrann sem ræður. Það er miður í þessu tilviki, það þarf ekki endilega að vera svoleiðis, en ég treysti því að Alþingi beiti sér fyrir breytingum þar á ef það kemur í ljós að sú stjórn sem verður skipuð verði að einhverju leyti pólitísk og starfi á pólitískum nótum eða á byggðalegum forsendum því að við megum ekki heldur missa þetta mál út í hreppapólitík, það gæti orðið vont og jafnvel enn verra. Ég treysti því að þingið og ráðherrann standi sig með sömu prýði í þessu máli og hefur verið gert hingað til.

Eins og ég sagði þá hefur verið ánægjulegt fyrir mig sem nýjan þingmann að taka þátt í þessu starfi og ég er feginn að eiga aðild að því og mun styðja það áfram.