137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta efnahags- og skattanefndar um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Frumvarpið er gjörbreytt og fjallar ekki lengur um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem enginn gat reyndar skilgreint nákvæmlega, ýmist féllu öll fyrirtæki undir það eða ekkert, það hefur sem sagt tekið mjög miklum breytingum. Fyrir þá sem gagnrýna þessi frumvörp öll vil ég benda á að ríkið er í gegnum ríkisbankana þrjá að eignast fjöldamörg fyrirtæki í landinu og er búið að eignast þau og er komið með þau sem eigandi. Við búum því við þann vanda að vera með fjölda fyrirtækja sem eru í miklum vandræðum og eru gjörsamlega háð ríkisvaldinu.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er sá að samræma þarf hvernig tekið er á þessum fyrirtækjum þannig að jafnræðis sé gætt á milli kröfuhafa, jafnræðis milli eigenda, jafnræðis milli starfsmanna einstakra fyrirtækja og þess að gagnsæi sé viðhaldið í öllu ferlinu. Þetta er mjög mikilvægt. Mér finnst að unnið hafi verið mjög faglega í hv. efnahags- og skattanefnd að því að gera breytingar á þessu og mér finnst að þessi markmið hafi að mestu leyti náðst fram og eiginlega að öllu leyti. Ég er því tiltölulega ánægður með niðurstöðuna.

Þegar fyrirtæki lendir í vandræðum, hvort sem það er af eigin sökum eða vegna þess að það verður fyrir dómínóáhrifum af einhverju öðru fyrirtæki sem lendir í vandræðum, fara mikil verðmæti forgörðum yfirleitt. Þar er um að ræða stjórnendaþekkingu, ég nefndi þetta við 1. umr., þar er stjórnendaþekking, þar eru tengsl við birgja og umboðsmenn og annað slíkt, þar er „good-will“ sem fyrirtækið býr að meðal almennings o.s.frv. Það er mjög mikilvægt, frú forseti, að þessum verðmætum sé viðhaldið eins og hægt er. Það er reyndar mjög erfitt að viðhalda þeim en við þurfum að stefna að því að viðhalda þessum verðmætum og einn þáttur í því er að búa til fyrirtæki sem veitir bönkunum ráðgjöf við þetta uppgjör og samræmingu á reglum þannig að það séu ekki mismunandi reglur í bönkunum þremur og jafnvel innan hvers banka fyrir sig. Að fyrirtæki séu ekki stundum meðhöndluð svona og stundum hinsegin, að það sé einhver aðili sem hefur vald til þess og líka þekkingu innan borðs til að beina þessu ferli inn í samræmt og gagnsætt ferli. Það er nefnilega alls ekkert einfalt að ráða við þann vanda sem við erum með í dag, svona mikið og almennt gjaldþrot fyrirtækja hefur aldrei verið á Íslandi áður. Það er eitthvað sem við þurfum að taka á og mér sýnist að þetta fyrirtæki, eftir að breytingar hafa verið gerðar á því, nái því markmiði.

Það kemur fram í greinargerð á síðu 3, með leyfi forseta:

„Eins og áður sagði lagði Josefsson áherslu á að félagið ætti ekki að kaupa lánskröfur eða eignarhluta í fyrirtækjum nema nauðsyn bæri til.“

Ég skil þá nauðsyn eingöngu þannig að ef viðkomandi banki eða bankar ef allir bankarnir eiga kröfu á eitt fyrirtæki sem sé svo mikið í sniðum að bankarnir hver um sig ráða ekki við það. Það er minn skilningur á þessari setningu. Það stendur líka í lögunum um tilgang félagsins að það eigi eingöngu í undantekningartilvikum að kaupa lánskröfur og eftir atvikum eignarhluti í hlutaðeigandi atvinnufyrirtækjum. Þetta á að vera algjör undantekning og það er ekki undantekning í þeirri stöðu sem við búum við í dag heldur undantekning í þeim fjölda fyrirtækja sem við erum að fjalla um. Þannig lít ég á það. Það verður vonandi aldrei að fyrirtæki þurfi að kaupa kröfur, svo ég tali nú ekki um hluti í fyrirtækjum.

Svo kemur hinn endinn og það er ráðstöfun eignanna og það er ekki minni vandi. Hann er eiginlega öllu stærri, hann er miklu, miklu stærri, frú forseti. Ríkisstjórnin er alltaf pólitískt valin — hún hlýtur að vera það, hún er kjörin af Alþingi og hún er pólitískt kjörin — og hún ráðstafar bönkunum sem eru ríkisbankar, þannig að allt er þetta, ef ég má nota það orð, löðrandi í pólitík. Bankaráðin eru þar af leiðandi undir pólitískum áhrifum og ráðstöfun á fyrirtækjunum sem á að fara að selja gæti þar af leiðandi — ég legg áherslu á gæti — orðið pólitísk. (Gripið fram í.) Og þá held ég að við getum lent í vondum málum, sagan hefur kennt okkur það, og ég tel einmitt að þetta fyrirtæki sem veitir ráðgjöf, samræmda ráðgjöf, án þess að koma að sem eigandi eða kröfuhafi, geti hindrað þau slys sem hugsanlega gætu ella orðið í svona pólitískt löðrandi kerfi.

Það náðist líka fram sú breyting að það væri hugað að samkeppni í þessu bæði þegar fyrirtækin eru tekin yfir og eins þegar þau eru seld. Það er mjög mikilvægt líka og bent var á það og nefndin breytti því. Síðan var líka hugað að því að aðrir aðilar gætu komið að ásamt með bönkunum við söluna, t.d. lífeyrissjóðir eða samtök þeirra, fyrirtæki einstaklinga, það gæti verið að einstaklingar stofnuðu hlutafélag til þess að kaupa svona fyrirtæki, útlendingar gætu komið að ásamt með þeim aðilum sem er verið að selja, þannig að þetta verði almennur kaupendamarkaður að þessum fyrirtækjum.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, ég bendi á að markmið laganna er gjörbreytt, það á ekki að kaupa eitt eða neitt, það á að tryggja skjóta úrlausn fjármálafyrirtækja á skuldavanda rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja og sama er með tilgang félagsins, hann er gjörbreyttur líka.

Hv. þingmaður Birkir Jón Jónsson ræddi dálítið um stjórnina og sá vandi var töluvert ræddur í nefndinni. Ég legg til eins og hér hefur komið fram að nefndin fjalli um málið á milli 2. og 3. umr. og fái til sín gesti sem gefa væntanlega breytt álit á þessu frumvarpi, það er jú breytt, og einnig að menn fjalli faglega um vandamálið með stjórnina og ég treysti því að það verði gert áfram.

Í þeirri stöðu sem við stöndum í dag er verulega mikilvægt að menn vinni að lausn þessara fyrirtækja, að lausn bankanna og öllu slíku með miklum hraða. Það er nefnilega þannig að allt er einhvern veginn í frosti, bankarnir geta ekki lánað, það er enginn að kaupa fyrirtæki, það er enginn að ganga frá fyrirtækjum. Mér finnst mjög brýnt að frumvarpið nái fljótt fram vegna þess að vandinn er vaxandi. Það er mjög mikilvægt að svona fyrirtæki fari í gang, byrji jafnvel að selja fyrirtæki ef áhugi er fyrir því, og ég held, frú forseti, að það sé töluvert meiri áhugi á því að kaupa fyrirtæki á Íslandi en menn átta sig á og töluvert meiri kraftur sem stendur á bak við það. Lífeyrissjóðirnir hafa mjög mikið lausafé, það telst í tugum milljarða. Bankarnir eru fullir af lausafé og vextir eru meira að segja farnir að lækka langt niður fyrir stýrivexti, stýrivextir eru hættir að stýra á Íslandi. Vextir eru ekki lengur 12% eins og menn gætu haldið, þeir eru eitthvað um 9%, 9,5%, og fara lækkandi vegna þess hve miklir peningar eru í umferð. Þetta gerir það að verkum að mikið fé bíður eftir því að fara að vinna og þetta frumvarp gæti stuðlað að því, ef vel tekst til, að þessir peningar fari að vinna. Það er svo mikilvægt, eins og ég hef bent á, að við fækkum þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur og fjölgum þeim sem borga skatta með því að auka atvinnutækifærin í þjóðfélaginu. Þetta frumvarp gæti eftir allar þessar breytingar, sem eru mjög jákvæðar, orðið einn þáttur í því að koma því í gang.

Frú forseti. Ég get ekki lokið þessu máli án þess að bera lof á hv. formann nefndarinnar, Helga Hjörvar, sem nú er reyndar horfinn úr þingsal en hann heyrir þetta sennilega seinna. Hann hefur unnið þetta mjög faglega og hefur tekið mið af öllum sjónarmiðum sem hafa komið fram. Allar hugmyndir hafa verið ræddar, sumar hafa náð fram, aðrar ekki eins og gengur en menn hafa það á tilfinningunni að unnið hafi verið mjög faglega. Ég tel að sú niðurstaða sem við erum með hér, þetta gjörbreytta frumvarp sé miklu betra en það sem lagt var af stað með og það er hv. formanni nefndarinnar að þakka.