137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:49]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið til 2. umr. Það er alveg ljóst að á sínum tíma var ráðherra og nefndinni nokkur vandi á höndum. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem komið er inn til Alþingis sem þarf að vinna hratt en samt gríðarlega vel. Atvinnulíf landsmanna er komið í hendur bankanna og víða um samfélagið er til staðar mikið vantraust á vinnubrögðum þeirra. Ég held að það sé ekki réttmætt því að ég held að bankarnir séu að miklu leyti að gera sitt besta í mjög erfiðri stöðu.

Markmið nefndarinnar var að móta reglur til að tryggja góð vinnubrögð innan bankanna, að tryggja gagnsæi og kannski ekki síst að veita ráðgjöf erlendis frá, einhvern farveg inn í íslenskt bankakerfi. Þá var það ekki síður markmið nefndarinnar að móta einhverjar reglur um hvernig þingið gæti haft eftirlit með að góðum vinnubrögðum væri fylgt, gætt væri jafnræðis og gætt væri að samkeppni o.s.frv.

Heilt yfir var það mat nefndarinnar að starfsemi miðlægs eignaumsýslufélags kynni að reynast vel í ákveðnum tilvikum þegar um væri að ræða endurskipulagningu mikilvægra atvinnufyrirtækja og þá sérstaklega þegar vinna við slíka endurskipulagningu væri umfangsmikil og erfið viðfangs fyrir hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Athuga ber að þarna er gengið út frá þeirri forsendu að nýju bankarnir þrír muni í flestum tilvikum hafa alla burði til að leysa úr skuldavanda fyrirtækjanna sem væru í viðskiptum við þá. Hins vegar má ekki gleyma því að það er áhyggjuefni að við núverandi efnahagsaðstæður er fjöldi atvinnufyrirtækja í skuldaerfiðleikum og að geta og færni hinna nýstofnuðu banka til að annast þessa endurskipulagningu er takmörkunum háð.

Við umfjöllun málsins innan nefndarinnar var lögð áhersla á mikilvægi þess að aðferðir við skuldameðferð atvinnufyrirtækja byggist á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðum þar sem gætt væri jafnræðis milli fyrirtækja og gagnvart kröfuhöfum þeirra. Meiri hlutinn hefur lagt á það ríka áherslu að úrræðin komi að gagni til að fyrirbyggja að verðmæt og rekstrarhæf fyrirtæki fari forgörðum í meira mæli en orðið hefur vegna hrunsins. Innan nefndarinnar hafa komið fram þau sjónarmið að þeir sem misst hafa fyrirtækin þrátt fyrir skynsamlegan rekstur eigi að fá tækifæri til að eignast þau aftur. Um þessi sjónarmið hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal t.d. rætt bæði í 1. umr. og í 2. umr. og ég get tekið undir sjónarmið hans. Það er mikilvægt að tryggt verði að hæfir stjórnendur fyrirtækjanna eigi að fá einhverja hlutdeild í því að endurreisn þeirra takist vel, og ég held að það sé mikilvægt að við stöldrum aðeins við þennan punkt því ákveðins misskilnings hefur gætt í almennri umræðu.

Ég held að langstærstur hluti stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum hafi stýrt fyrirtækjum sínum með ágætum hætti en eru hins vegar í dag með fyrirtæki sín í miklum vandræðum vegna utanaðkomandi áhrifa. Meðal þessara stjórnenda leynist margt hæfileikafólk sem gegna þarf lykilhlutverki við endurreisn þessara fyrirtækja og því þarf að gæta að þeirri þekkingu sem þar býr. Það þarf að tryggja að þetta fólk geti haft aðkomu að endurskipulagningu sem á sér stað innan bankakerfisins á þeim atvinnufyrirtækjum sem þar eru.

Mig langar einnig að staldra við í frumvarpinu þar sem við ræðum um rekstrarhæf atvinnufyrirtæki. Þar á meiri hlutinn við þau fyrirtæki sem skila framlegð eða eru líkleg til þess eftir endurskipulagningu. Hér erum við að horfa til vænlegra fyrirtækja sem búa við jákvætt sjóðstreymi og horfum þá til þess að breyta þurfi samsetningu skulda þeirra til að þau komist klakklaust út úr þeim erfiðleikum sem þau búa við.

Í frumvarpinu gerum við einnig ráð fyrir að félagið hafi heimild til þess að kaupa eignarhluta í atvinnufyrirtækjum ef nauðsyn ber til og einkum þá vegna mikils umfangs endurskipulagningarinnar. Hins vegar ber að leggja áherslu á að hér er aðeins verið að tala um undantekningartilfelli þegar gert er ráð fyrir að félagið þurfi að kaupa veðkröfur í þessum fyrirtækjum.

Í umsögnum til nefndarinnar taldi Samkeppniseftirlitið að tillögudrögin kynnu að fara í bága við markmið samkeppnislaga og að gefin fyrirheit um samræmdar lausnir fjármálafyrirtækja við skuldavanda atvinnufyrirtækja drægju verulega úr þeim sjónarmiðum. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga að meiri hlutinn ítrekar það sem áður hefur komið fram um mikilvægi þess að félagið gæti hlutlægni, gagnsæis og jafnræðis við meðferð rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Það er alls ekki markmið laganna að hindra samkeppni með nokkrum hætti og raunar tel ég ekki að það verði raunin.

Eins og segir í a-lið 3. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Félagið skal starfa eftir gagnsæjum og hlutlægum reglum um endurskipulagningu og kaup á eignum að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og samkeppni.“

Það er að segja gagnsæi í störfum félagsins og vinnubrögðum bankanna ætti þannig að mínu mati að virkja samkeppnina miklu fremur.

Meiri hluti nefndarinnar tekur undir að það er mikilvægt að félagið ráðstafi eignarhlutum í fyrirtækjum eins skjótt og markaðsaðstæður leyfa og jafnframt að teknu tilliti til sjónarmiða um virka samkeppni og dreifða eignaraðild. Undirstrikað hefur verið á fundum nefndarinnar mikilvægi þess að heimila aðkomu áhugasamra fjárfesta að söluferlinu, einkum einstaklinga og lífeyrissjóða. Hér erum við að snerta á mikilvægi þess að atvinnufyrirtækjum þessum sé ráðstafað með skynsamlegum hætti.

Í c-lið 3. gr. frumvarpsins segir að tilgangur félagsins sé eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að ráðstafa eignum sem félagið kaupir, sbr. a-lið, eins fljótt og markaðsaðstæður leyfa með gagnsæjum hætti og að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði, virka samkeppni, dreifða eignaraðild, þar með talið eignaraðild starfsfólks, hámörkun verðmæta ríkissjóðs og byggðafestu.“

Þetta er mikilvægur þáttur og ég held að sé fyrsta skrefið tekið í þá átt að tryggja að þessi fyrirtæki komist aftur út á markaðinn og úr eigu bankanna.

Meiri hlutinn er sammála því að mikilvægt er að tryggja gagnsæi í störfum félagsins og eftir ítarlegar umræður var lagt til að Ríkisendurskoðun annist fjárhagsendurskoðun félagsins og að stjórn félagsins verði heimilað að ráða innri endurskoðanda eða endurskoðunarfélag. Þar er enn fremur lagt til að félagið gefi efnahags- og skattanefnd Alþingis að lágmarki tvisvar á ári skýrslu um starfsemi þess og að fjármálaráðherra gefi þingheimi ítarlega skýrslu um starfsemina með sama millibili og þá um leið um ráðningu framkvæmdastjóra stjórnar.

Eða eins og segir í 6. gr., með leyfi forseta:

„Þá skal gerð grein fyrir hvernig könnun hefur farið fram á almennum og sérstökum hæfisskilyrðum stjórnar, framkvæmdastjóra og annarra sem starfa á vegum félagsins auk þess sem getið skal um hagsmunatengsl og önnur atriði sem til þess eru fallin að draga óhlutdrægni þessara aðila í efa.“

Þessi hæfismál eru vissulega vandmeðfarið verkefni eins og kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og ég tel og tek að mörgu leyti undir með þeim sjónarmiðum sem hann reifaði, að nefndin þurfi að skoða þetta vandlega í meðförum málsins á milli 2. og 3. umr. Ég tel þó að með þessu ákvæði séum við að skapa nauðsynlegt aðhald við ákvarðanir fjármálaráðherra við skipun stjórnar og framkvæmdastjóra og formaður nefndarinnar rakti sömuleiðis þau álitamál hér áður.

Frú forseti. Að lokum við ég segja þetta: Markmið þessarar lagasetningar er að tryggja hlutlæga ráðgjöf, sanngjörn og gegnsæ vinnubrögð og að tryggja jafnræði og heiðarlega samkeppni. Því markmiði er náð með þessu frumvarpi og ég vil einnig leggja á það áherslu að aðeins í undantekningartilfellum á þetta umsýslufélag að fara inn í atvinnufyrirtækin sjálf, aðeins í algjörum undantekningum, því þetta eignaumsýslufélag á fyrst og fremst að vera ráðgefandi og tryggja góð vinnubrögð.

Í gegnum eignarhald sitt á bönkunum situr ríkið nú uppi með stóran hluta af atvinnulífi landsmanna. Það er í raun og veru grábölvað. Hér erum við um leið að reyna að móta farveg fyrir gagnsæi í vinnubrögðum á þeim þáttum sem snúa að þeirri tengingu sem við komumst ekki hjá, þ.e. tengingunni á milli stjórnmálanna og atvinnulífsins. Ekki síður þurfum við öll, og það erum við að reyna með þessu frumvarpi, að byggja upp traust á þessari tengingu.

Lykilsetningin í þessu öllu saman er kannski sú setning sem sjaldan eða að ég held ekki er að finna í þessu frumvarpi, þ.e. að við erum að reyna að endurvinna traust á bankakerfi landsmanna og skapa traust á endurreisn atvinnulífsins. Ég tel að þetta frumvarp hafi náð þeim markmiðum, ekki síst fyrir tilstilli vinnu nefndarmanna og góðri vinnu formanns nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvars, og ég tek undir með nefndarmönnum sem hafa rætt um gott starf hans á undanförnum vikum.