137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er í raun alveg nýtt mál fyrir mér, frú forseti. Það hefur tekið það miklum breytingum að maður veltir því fyrir sér hvernig smíðin á frumskjalinu var, hvernig því var háttað og hvaða vinna var lögð þar í, breytingin er þvílík. Þetta er miklu betra skjal eða betra mál sem nú er verið að fjalla um og kynna fyrir okkur, því er ekki að neita. Ég get tekið undir það sem sagt hefur verið varðandi þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu. Ég vil samt árétta nokkur atriði sem koma fram í áliti minni hluta nefndarinnar, þ.e. í áliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Það hefði mátt gera örlítið meiri breytingar á því til þess að þetta mál fengi algjöran stuðning í þinginu. Það er þó gott og rétt að halda því til haga að það virðist vera horfið frá því að búa til einhvers konar ríkisfyrirtæki sem ætti að sýsla með helstu fyrirtæki í landinu, heldur er þetta orðið miklu nær því að geta talist eðlilegt fyrirtæki eða eðlileg ráðstöfun sem hér er verið að fara fram með.

Þær efasemdir, eins og kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar áðan, eru ekki eingöngu bundnar við álit hans heldur hafa aðilar sem hafa komið fyrir nefndina, að mér skilst eða fjallað um málið, haft ákveðnar efasemdir við einstaka þætti og má þar nefna Alþýðusambandið, Samtök atvinnulífsins o.fl. Ég held að það sé mikilvægt, eins og ég skildi þingmenn fyrr í kvöld, að það sé eðlilegt að þetta verði rætt aðeins betur milli umræðna og jafnvel að þeir umsagnaraðilar sem komið hafa áður verði kallaðir aftur fyrir nefndina því að það er ljóst að þetta er ekki sama mál og þeir voru látnir fjalla um á sínum tíma.

Varðandi einstök atriði í frumvarpinu er ljóst að þar er gert ráð fyrir að ráðherra fái töluvert mikið vald og þær efasemdir sem ég hef varðandi það snúast ekki um þann ágæta ráðherra sem er nú í stóli fjármálaráðherra heldur það að við séum að skilja þetta eftir nokkuð opið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í þessu félagi og þessu máli sem og öðrum sem við fjöllum um að sagt sé með skýrum hætti skilið við þá hluti eða þau vinnubrögð sem tíðkuðust á sínum tíma og voru kannski ekkert óeðlileg á þeim tíma en nú eru uppi önnur sjónarmið í samfélaginu og hér á hinu háa Alþingi.

Ég tel einnig mikilvægt að ítreka að það sé tekið fram að í stjórninni skuli sitja aðilar sem eru íslenskir ríkisborgarar. Það er mikilvægt að tryggt sé að inn í þetta fyrirtæki eða inn í þetta félag verði skýr og öflug tengsl við þjóðfélagið og þá starfsemi eða þá menningu sem hér er, en að sama skapi sé tryggt að utanaðkomandi aðilar komi, með nýja sýn á hlutina.

Það eru nokkrir hlutir sem þarf að skýra og ég tek undir það sem kemur fram í áliti minni hlutans að það er mikilvægt að taka undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að reglur um sölu á eignarhlutum ríkisins verði lögfestar. Það er mjög mikilvægt að þau atriði séu mjög skýr og það liggi ljóst fyrir um leið og fyrsta skrefið er tekið í þessu hvernig menn ætli að halda áfram, hvernig á að klára þau mál sem hér er verið að fara af stað með.

Við gerum okkur kannski ekki öll grein fyrir því hvaða fyrirtæki, félög eða starfsemi gætu lent eða endað inni í þessu eignarhaldsfélagi eða þessu félagi en það er að sama skapi alveg ljóst að áhrif þess og völd geta orðið mjög mikil og haft því áhrif á uppbyggingu efnahagslífsins og framtíð þess. Ég tek undir það sem fram hefur komið að þetta er eflaust mikilvægur þáttur í því að endurreisa efnahagslíf okkar og því er mjög mikilvægt að við vöndum vel til verka.

Það eru, eins og kemur fram í áliti minni hlutans, ekki allir sérfræðiaðilar sammála því að þetta sé besta leiðin en ég held að við eigum kannski ekki svo marga aðra möguleika til þess að koma að þessum málum og því ber að fagna að tillit hafi verið tekið til þeirrar gagnrýni sem kom fram við 1. umr. og unnið að málinu öllu með vandaðri og betri hætti.

Alþingi ákvað þegar verið var að ráða seðlabankastjóra að sérstök hæfisnefnd yrði skipuð til þess að fjalla um þá umsækjendur. Þetta er kannski ekki jafnmikilvægt og Seðlabankinn en engu að síður tel ég það mjög mikilvægt og í rauninni eðlilegt að gerð sé sama krafa þar, að það sé einhvers konar hæfisnefnd sem fjalli um þá sem tilnefndir verða í þessa stjórn, að það sé ekki eingöngu bundið við ráðherra á hverjum tíma að ákveða það og skipa. Ráðherra á að sjálfsögðu síðasta orðið um það og þarf að gefa sitt samþykki.

Hér er talað um að í tilnefninganefnd gætu setið fulltrúar ráðherra, eða ættu að sitja, og frá aðilum vinnumarkaðarins, eftirlitsstofnunum og háskólasamfélaginu. Með því móti er verið að tryggja sem breiðasta sýn á það hverjir séu hæfastir til þess að vera í stjórn.

Að lokum er í minnihlutaálitinu kveðið á um að minni hlutinn telji brýnt að ríkið setji sér skýra eigendastefnu. Ég held að það sé afar mikilvægt því að það er ekki sama hvernig á þessu er haldið og hvernig upplýsingar og annað er veitt út úr slíku félagi.

Ég ætla ekkert að hafa þessi orð mikið lengri, ég vil bara ítreka að það mál sem við fjöllum um hér er allt annars eðlis og í raun nýtt mál sem kemur nú frá nefndinni og það er alveg hægt að hrósa nefndinni fyrir að hafa tekið duglega til hendinni með að breyta því frumvarpi sem fyrst kom fram og þeirri tillögu. Hins vegar vil ég ítreka að nefndinni verði gefið færi á að kalla til sín eða leita umsagnar þeirra aðila sem gáfu umsögn um frumdrögin því að þetta er allt annað og er í rauninni nýtt mál eins og ég sagði áðan.

Að lokum ítreka ég að ég tel að það hefði verið hægt að gera örlítið betur og tek því undir álit minni hlutans.