137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að það komi einnig fram að það hefur verið svo eins og er kveðið á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna að Íslendingar áskilja sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og forsendur fyrir veiðum á nýtingu sjávarspendýra verða jú bara endurmetnar með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.

Ég legg áherslu á að við þær veiðar sem stundaðar eru, hversu svo umdeildar sem þær eru frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður vakti athygli á, er lögð rík áhersla á vísindalegan grunn sem staðfestur er á alþjóðavettvangi að um sjálfbærar veiðar sé að ræða hvað varðar viðkomandi stofna sem slíka þannig að það á ekki að vera hætta á rányrkju hvað það varðar.

En það er mjög mikilvægt að taka tillit til sem flestra sjónarmiða sem lúta að umgengni, verndun og nýtingu á þessum auðlindum sem öðrum og þess vegna hefur verið sett í gang mjög vönduð úttekt á þessum hagsmunum sem hægt er að leggja mat á með tölulegum hætti. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að allar þær forsendur séu til staðar þegar ákvarðanir eru teknar en með þessu frumvarpi er verið að gefa ráðherra og þingheimi heimild til að stöðva (Forseti hringir.) veiðar ef rík ástæða er til sem ekki er í núgildandi lögum.