137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vandi fyrir ráðherra að blanda eigin tilfinningum inn í það að meta spurningu hv. þingmanns en varðandi þá veiðiaðferð sem hv. þingmaður lýsti síðast þá get ég eiginlega ekki hugsað mér það. En það er svo aftur bara mín tilfinning sem segir mér það. Hitt vil ég leggja áherslu á varðandi spurningar hv. þingmanns um störf og aðra verðmætasköpun í þessu sambandi að nú í ár er verið að hefja hvalveiðar eftir langt hlé og því er erfitt að leggja mat á það og upplýsingar um markað og markaðsverð og annað því um líkt. Þetta er eitt af því sem sú stofnun sem ráðuneytið hefur falið að gera þessa úttekt á að fylgjast vel með, hverju þessar veiðar eru að skila og koma með upplýsingar um í lok veiðitímabilsins í ár.

Varðandi ferðaþjónustuna þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að huga þarf sérstaklega að ferðaþjónustu sem tengist þessu og hann minntist þar á hvalaskoðun. Núna er svæðisskipt hvar megi stunda þær hvalveiðar sem fóru af stað samkvæmt ákvörðun fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eða þar á undan og hvar er frátekið svæði fyrir hvalaskoðun. Það má vel vera að færa verði til þessi svæði þannig að tekið sé tillit til þessara sjónarmiða. (Forseti hringir.) Nú þegar er farið að tengja saman með þessum hætti hvalveiðar og ferðaþjónustu og ég tel að huga eigi vandlega að ferðaþjónustuþættinum varðandi þetta mál.