137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að hvalveiðar og neysla á hvalaafurðum er hluti af menningu strandríkja eins og Íslands og fleiri ríkja, enda er skýrt kveðið á um það og Ísland hefur ávallt haldið því fram að nýting sjávarauðlinda sé réttur strandríkja ef það er gert á sjálfbæran hátt og í sátt við alþjóðasamfélagið og á það er einmitt lögð áhersla í þessu sambandi.

Ég vil líka taka undir þau sjónarmið hv. þingmanns að hvalur meðfram ströndum landsins er ein af auðlindum okkar og bendi á að nú þegar er hann undirstaða undir mjög víðtæka og sterka ferðamannaþjónustu sem skapar gjaldeyri til landsins og skapar fjölda starfa í landinu sem ég vonast einnig til að fá úttekt á í þeirri greinargerð sem við höfum beðið Háskóla Íslands að vinna fyrir ráðuneytið, að öll þessi sjónarmið og allir þeir möguleikar sem hvalurinn gefur í atvinnusköpun fyrir þjóðina séu þar vegnir og metnir saman. Ég legg áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir okkur að hafa mjög sundurgreindar upplýsingar um þá miklu hagsmuni sem eru í húfi fyrir íslenska þjóð að hvalastofnar við Ísland (Forseti hringir.) séu bæði verndaðir og þeir nýttir til sem mestra hagsbóta og þjóðhagslegs ábata fyrir þjóðina.