137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu ansi merkilegt mál, frumvarp til laga um hvali, mál sem menn hafa verið að velta fyrir sér frá ýmsum hliðum. Hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði athugasemdir og velti sérstaklega fyrir sér síðari hluta 1. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þetta er í raun og veru sama setningin og er í lögum um stjórn fiskveiða á árinu 2006 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Vangaveltur hv. þm. Illuga Gunnarssonar snúa að því hvort hér sé um að ræða sameign þjóðarinnar eða ríkiseign eins og hann vill kalla eða hvort rétt sé að úthluta veiðiheimildum til þeirra sem einhvern tíma áður hafa stundað hvalveiðar. Þarna ber allt að sama brunni eins og hvað annað varðar þegar kemur að umræðum um stjórn fiskveiða. Það er fyrst og fremst eignarrétturinn sem sjálfstæðismönnum er annt um að verja og þeir vörðu með kjafti og klóm í vetur og gera enn.

Ég vil spyrja þingmanninn að því svo það sé alveg á hreinu hvort hann telji að það þurfi að vera með þeim hætti að þeir sem fá úthlutað veiðiheimildum myndi einhvers konar eignarrétt á nýtingu hvala, bæði til veiða og til annarra nota, hvort það megi skilja það þannig að hann telji að rétt sé að þarna myndist einhvers konar eign.