137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Munurinn á fiskveiðum annars vegar og hvalveiðum hins vegar sem lúta að spurningunni um eignarréttinn felst einkum í því að það er óslitin saga nýtingar á Íslandsmiðum langt aftur þar sem á ferðinni hafa verið einstaklingar og fyrirtæki þeirra sem hafa þróað tækni til fiskveiða, fiskvinnslu, markaðssetningar og annars slíks og þar með gefið auðlindinni gildi. Þess vegna er ég og margir aðrir þeirrar skoðunar að þetta sé ekki ríkiseign heldur sé þetta eign einstaklinga, þ.e. veiðirétturinn, heimildin til að veiða, en fiskstofnarnir séu síðan sjálfir einhvers konar sameign eða eign ríkisins eða hvernig menn vilja horfa á það.

Hér er aftur á móti uppi sú staða að slíkar veiðar hafa ekki verið stundaðar í rúma tvo áratugi á Íslandsmiðum. Þá kemur upp sú spurning sem ég lagði upp í ræðu minni áðan hvort menn væru komnir á þá skoðun, og það kann vel að vera réttmæt skoðun, að ríkið teldi að það hefði eignarrétt á þessari auðlind. Síðan má lesa það út úr lagafrumvarpinu eða út úr frumvarpinu að menn ætla sér að útdeila þessu með föstu veiðigjaldi annars vegar og hins vegar kílóagjaldi sem sýnir þá hugsun að um sé að ræða eign ríkisins og þar með er það eðlileg niðurstaða í sjálfu sér að það sé ekki myndun séreignarréttar úr því að ríkið telur sig eiga þetta. Það væri þá á þeim rökum að þarna sé þetta bil, þar sem slíkar veiðar hafa ekki verið stundaðar, og þar með geti einstaklingar ekki krafist séreignarréttar. Um þetta vil ég gera ágreining, að þeir sem eiga sér þessa veiðisögu samanber fyrirtækið Hval og fleiri gætu ábyggilega verið þeirrar skoðunar að þeirra væri einhver réttur. Það er þá annað sjónarmið.