137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um þetta frumvarp til laga um hvali. Eins og greinilega hefur komið fram í máli hv. þingmanna eru ýmis sjónarmið uppi um hvernig megi best halda á þessum málum. Ég vil leggja áherslu á það sem ég sagði í framsögu minni að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi gert samning við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og að í matinu verði tekið tillit til áhrifa hvalveiða á atvinnustig fjárfestingar, útflutningstekjur og afleidd áhrif á ferðaþjónustu og önnur hugsanleg áhrif á aðrar atvinnugreina. Og þó að hv. þingmenn hafi vísað til þess að einhverjar viðlíka athuganir hafi farið fram einhvern tíma áður þá er mjög mikilvægt að upplýsingar um áhrif þess hvernig gengið er um þessa auðlind og þær upplýsingar séu stöðugt endurnýjaðar og stöðugt nýtt mat lagt á mikilvægi einstakra þátta í þessum málum. Ég vil vekja athygli á því að ferðaþjónustan, sem byggir á og tengist hvalaskoðun, er atvinnugrein sem hefur vaxið mjög hratt og mikið á síðustu árum, nokkuð sem var ekki til staðar þegar hvalveiði var stunduð sem atvinnugrein fyrir áratugum síðan, líklega um 1980, um það leyti sem veiðar í atvinnuskyni voru lagðar af. Það eru því komin svo fjöldamörg ný sjónarmið inn sem ber að taka tillit til og síðan áhrif á alþjóðavettvangi. Nú fer í hönd sá tími sem hvalveiðar hafa verið heimilaðar og það þarf að fylgjast mjög vel með öllum þáttum hvað það varðar.

Réttur strandríkja, bæði réttindi og ábyrgð strandríkja, hefur verið áréttaður og ég vil ekki gera minna úr ábyrgð strandríkja til að afla sem gleggstrar vitneskju um lífríki innan lögsögu sinnar þar sem þau bera ábyrgð og verndun og þá sjálfbæra nýtingu þeirra auðlinda eftir atvikum eftir því hvernig hún er stunduð.

Það kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur ábending um að umhverfisnefnd fengi einnig að gefa umsögn um málið til hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar sem fer með forræði málsins í þingnefndum. Ég styð það eindregið en ítreka mikilvægi þess að þetta mál fái eins hraða meðferð í þinginu og nokkur kostur er og legg einnig áherslu á vandaða vinnu.

Það er mikilvægt að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu en einnig að þau sjónarmið sem þurfa að koma fram fái tækifæri til að vera metin í þingnefnd.

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu og ítreka þá ósk að þetta mál gangi til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að umræðu lokinni.