137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að fyrir nokkrum vikum kynntu fulltrúar úr samninganefndinni samningsdrögin fyrir þingflokki Samfylkingar. Í gær funduðum við tvisvar um málið með sérfræðingum úr samninganefndunum og sérfræðingum úr ráðuneytunum sem hafa fjallað sérstaklega um málið. Það er alveg ljóst eins og fram kom að það þarf að ljúka þessum málum með einhverjum viðunandi hætti. Núna kemur til kasta þingsins að kalla eftir öllum upplýsingum um þessi mál og fá alla þá færustu sérfræðinga sem í boði eru hérlendis og erlendis til að fullvissa þingmenn um að þetta sé skásta leiðin í erfiðri stöðu. Þá þurfa öll gögn að liggja fyrir. Það hefði verið miklu heppilegra að t.d. öll gögn og samningurinn sjálfur hefði komið fram fyrr þannig að umræðan hefði mátt ganga fyrr fram um efnisinnihald samningsins. Síðan kemur það náttúrlega í ljós þegar upp er staðið og eftir umfjöllun þingnefnda og þingsins hvernig þingið greiðir atkvæði um samninginn, en það kom ekkert annað fram innan okkar þingflokks en að þingmenn teldu að þetta væri sú leið sem væri skást að fara í þessari erfið stöðu. Nú tekur við umfjöllun um samninginn, þannig að fólk geti leitað eftir málefnalegri fullvissu um að þessi leið sé fær og það hefur ekki komið annað fram en að svo sé.