137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að ræða tvö mál við hv. þingmann og formann iðnaðarnefndar og ég reikna þá með að ég megi koma upp tvisvar ef tími verður til.

Ég ætla að byrja á því að spyrja aðeins út í raforkulög og ástæðan er m.a. sú að um daginn fór fram umræða sem hæstv. iðnaðarráðherra tók þátt í. Það sem ég er að velta fyrir mér er að þar kom fram að nefnd væri að endurskoða raforkulögin og hún mundi skila af sér í árslok 2010. Ég gerði þá athugasemd eða spurði hvort það kæmi ekkert fyrr frá nefndinni. Ráðherra vildi meina að svo væri. Mig langar að spyrja formann iðnaðarnefndar hvenær hann geri þá ráð fyrir að við sjáum einhverja tillögu varðandi breytingar á raforkulögum og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um það sem kemur fram m.a. í athugasemd frá Fjárfestingarstofu í minnisblaði til iðnaðarnefndar. Þar er rætt um að það sé frekar þröng skilgreining á raforkunotendum og ekki hugsað til minni notenda og slíkt. Því velti ég fyrir mér hvenær við munum sjá breytingu á því sem gerir ráð fyrir að annaðhvort verði lækkuð þau viðmið sem miða við notendur svokallaðs stórnotendataxta, sem er 14 megavött, eða verður búin til einhver millibilsleið þar sem þeir t.d. sem nota 7–14 megavött verða skilgreindir með einhverjum sérstökum hætti o.s.frv.? Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að þessari vinnu verði hraðað hið fyrsta.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að ef hv. þingmaður óskar eftir að taka til máls að nýju þarf hann að kveðja sér hljóðs eftir að hann hefur lokið máli sínu, þannig að ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður vilji að ég færi hann á mælendaskrá og forseti mun bæta honum þar við.)