137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:37]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessa þörfu fyrirspurn. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að skipuð hefur verið nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins til að endurskoða ákvæði raforkulaga í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við raforkulög, nr. 65/2003. Samkvæmt lögunum á þessari endurskoðun að vera lokið fyrir 31. desember 2010 og eitt af þeim viðfangsefnum sem nefndin hefur fengið til skoðunar er einmitt þetta atriði sem hv. þingmaður nefnir, hvort það sé tilefni til að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið í raforkulögum okkar að þar séu bara tvær skilgreiningar, annars vegar almennir notendur og hins vegar stóriðjan. Ég get staðfest að þetta er eitt af því sem þessi nefnd mun taka til skoðunar. Hún hefur reyndar þau fyrirmæli að flýta sérstaklega skoðun á þeim þáttum sem lúta að því hvernig hægt sé að auka gjaldeyristekjur og atvinnusköpun í samfélaginu og mun eiga að skila tillögum um það efni hið fyrsta, þ.e. fyrir ágústlok á þessu ári, 2009.